Börn í Reykjanesbæ hafa mikinn áhuga á stærðfræði
Mikill áhugi er á stærðfræði meðal nemenda í grunnskólum Reykjanesbæjar.
Samkvæmt nemendakönnun Skólapúlsins frá árinu 2013, er Reykjanesbær í hópi þeirra sveitafélaga þar sem áhugi barna á stærðfræði er hvað mestur. Jákvæð þróun hefur verið í árangri nemenda í Reykjanesbæ, Garði og Sandgerði í stærðfræði á síðustu árum, sérstaklega þegar litið er til árangurs í samræmdum könnunarprófum í stærðfræði í 4. bekk.
Nemendur í 4. bekk í grunnskólum Reykjanesbæjar voru til að mynda í hópi þeirra bestu á landinu í stærðfræði. Reykjanesbær er kominn í hóp 10 bestu sveitarfélaganna þegar litið er til hæfni nemenda í stærðfræði í 4. Bekk þegar tekið er meðaltal síðastliðinna 5 ára.
Að sögn Gylfa Jóns Gylfasonar fræðslustjóra má rekja miklar framfarir nemenda til þess að kennarar hafa lagt mikla vinnu í að bæta kennsluaðferðir og eru í góðu samstarfi við heimilin og að samstarf kennara milli skóla hefur aukist.