Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Mánudagur 26. mars 2001 kl. 09:43

Börn að leik fundu hass á víðavangi

Lögreglan í Keflavík handtók sl. laugardag tvo menn fyrir aðild að smygli á hassi. Mennirnir eru báðir menntaðir flugvirkjar og störfuðu hjá Flugleiðum á Keflavíkurflugvelli, annar sem flugvirki en hinn á varhlutalager. Þeir voru staðnir að verki þar sem þeir vitjuðu bögguls með um 850 g af hassi sem þeir geymdu á víðavangi. Böndin bárust fljótlega að þriðja manninum sem hefur játað aðild sína að málinu. Mbl.is greindi frá.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Keflavík fór sá til Kaupmannahafnar í febrúar og keypti þar 1,5 kg af hassi. Efnið faldi hann á salerni Flugleiðavélar þar sem annar mannanna vitjaði þess.
Mennirnir höfðu selt um 650 g af hassi áður en þeir náðust en eitthvað af því notuðu þeir til eigin neyslu.
Að sögn lögreglunnar fannst hassið á laugardagskvöldið en það voru börn að leik í móa norður af bænum sem fundu böggul með hassinu. Þau sýndu hann foreldrum sínum sem höfðu samband við lögreglu. Í honum reyndust vera um 850 g af hassi.
Lögreglan kom bögglinum aftur fyrir á sama stað en vaktaði svæðið. Um kvöldið voru tveir mannanna staðnir að verki þegar þeir ætluðu að ná í hassið. Við yfirheyrslur yfir mönnunum kom fram að þeir höfðu geymt hassið á öðrum stað. Einhver styggð kom að þeim þar og því fluttu þeir efnið þangað sem það fannst á laugardaginn.
Lögreglan hafði haft mennina undir eftirliti um nokkurn tíma áður en hassið fannst, vegna upplýsinga sem lögreglunni höfðu borist um að þeir seldu fíkniefni. Mennirnir, sem allir eru á þrítugsaldri, hafa allir játað sinn þátt í smyglinu.
Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Flugleiða, segir að starfsmennirnir tveir hafi báðir verið leystir undan starfsskyldum hjá fyrirtækinu.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024