Borgar sig ekki að fara út á sjó
Mjög góð aflabrögð hafa verið upp á síðkastið hjá Suðurnesjabátum og er reyndar talað um mokfiskerí. Það skyggir þó á gleðina að sölutregða hefur gert vart við sig og fiskverð lækkað. Þá vekur það athygli að þrátt fyrir góðviðrisdaga undanfarið liggja netabátar bundnir við bryggju og fara hvergi. Ástæðan mun vera sú að leiguverð á kvóta er orðið það hátt í samanburði við verð á fiskmörkuðum að menn sjá sér ekki hag í að fara út á sjó.
Ef litið er á leiguverð síðustu mánaða þá sést að t.d leiguverð á þorski var í byrjun árs um 212 krónur og fór upp í um 220 krónur. Um miðjan janúar var það komið niður í 190 krónur. Meðalverð á þorski á fiskmörkuðum var í byrjun árs rúmar 250 krónur og féll niður 185 krónur í lok janúar. Leiguverð var því orðið hærra en verðið sem fékkst fyrir aflann á markaði, að því er fram kemur á fréttavefnum www.aflafrettir.com