Borgabrautin innan seilingar
Líklegt er að framkvæmdir geti hafist innan tíðar vegna fyrirhugaðrar Borgabrautar sem mun ná frá Reykjanesbraut niður að Reykjavíkurtorgi á mótum Njarðarbrautar og Hafnargötu í Reykjanesbæ.
Lengi hefur staðið til að Reykjanesbæ muni leggja fram lánsfé til að Veggerðin geti hafið framkvæmdir sem fyrst, en ráðuneytið var ekki mjög hrifið af slíkri ráðstöfun fyrr en framkvæmdin væri komin inn á samgönguáætlun og væri ekki of langt í burtu í tíma. Borgarbrautin er nú komin á áætlun sem liggur fyrir á þingi og fær fjárveitingu árið 2009 sem er nógu stuttur tími til að þessi leið verði farin.
Að sögn Viðars Más Aðalsteinssonar, framkvæmdastjóra Umhverfis- og skipulagssviðs Reykjanesbæjar, verður farið út í undirbúning á útboði eftir að áætlunin verður samþykkt á þingi. „Svo gætum við í okkar björtustu áætlunum farið í útboð með vorinu.“
Stefnan hefur verið sett á að ljúka verkinu í haust en á leiðinni ofan af Reykjanesbraut niður að Njarðarbraut verða alls fimm hringtorg sem verða kennd við nokkrar af helstu höfuðborgum heimsins. „Það verður mjög jákvætt að fá brautina loks inn í bæinn okkar,“ sagði Viðar að lokum.
Flugvallarvegurinn gamli hefur verið lokaður um nokkurra vikna skeið þar sem landeigendur standa þar í jarðvegsframkvæmdum. Kostnaður við lagningu Borgabrautarinnar hefur verið talinn nema um 200 milljónum króna.
Mynd: Borgabrautin, merkt rauðu, séð ofanfrá.