Bönnuðu kennsluflug í Keflavík vegna manneklu

Grípa varð til þess ráðs að banna allt flug um Keflavíkurflugvöll nema áætlunarflug í gær vegna forfalla flugumferðarstjóra í flugturninum á vellinum. Þetta þýddi að allt kennsluflug var bannað. Frá þessu er greint á mbl.is.

Friðþór Eydal, upplýsingafulltrúi Isavia, segir í samtali við mbl.is að forföll hafi verið hjá flugumferðarstjórum. Ekki hafi unnist tími til að finna menn til að hlaupa í skarð þeirra sem forfölluðust. Hann segir að þess vegna hafi orðið að banna tímabundið kennsluflug. Þessi staða sé ekki einsdæmi. Friðþór tók fram að mönnun í turninum hafi ekki verið undir því sem reglur heimila.

Friðþór sagðist ekki vita hversu marga menn hafi vantað á vakt, en samkvæmt heimildum mbl.is voru aðeins þrír flugumferðarstjórar á vakt um tíma.