Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Bókun Samfylkingarinnar: Margir óvissuþættir í fjárhagsáætlun
Miðvikudagur 4. janúar 2012 kl. 10:16

Bókun Samfylkingarinnar: Margir óvissuþættir í fjárhagsáætlun


Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hefur undanfarin ár fylgst mjög vel með fjármálum sveitarfélaga á Suðurnesjum. Athygli eftirlitsnefndarinnar hefur sérstaklega beinst að þeim sveitarfélögum sem rekin hafa verið með tapi undanfarin ár, verið sérstaklega skuldsett og þurft að selja eignir til að standa undir skuldbindingum. Alvarleg fjárhagsstaða Reykjanesbæjar eftir 10 ára fjármálastjórn sjálfstæðismanna hefur verið viðvarandi áhyggjuefni eftirlitsnefndarinnar, segir í bókun Samfylkingarinnar vegna fjárhagsáætlunar Reykjanesbæjar 2012 sem samþykkt var á fundi bæjarstjórnar í gær. Samfylkingin sat hjá við atkvæðagreiðslu fjárhagsáætlunarinnar.

Nánar úr bókuninni:

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þegar litið er til fjárhagsáætlunar Reykjansbæjar fyrir árið 2012 sést að skuldavandi sveitarfélagsins er orðinn þess valdandi að meirihluti sjálfstæðismanna stefnir í nýjar hæðir í sölu eigna Reykjanesbæjar á árinu.

Í stuttu máli má segja að fjárhagsáætlunin sjálfstæðismanna fyrir árið 2012 einkennist af eftirfarandi þáttum:
- Sölu eigna til að borga niður skuldir. Hér er átt við svo kallað Magma skuldabréf en áætlað verð þess er um 6.1 milljarður og sölu á 15% eignahlut bæjarins í HS-veitum en áætlað verð á honum er 1,5 milljarðar. Lækkun skulda er áætluð um rúma 3 milljarða.
- Yfirtöku á eignum Eignarhaldsfélagsins Fasteignar (EFF). Hlutabréf Reykjanesbæjar í EFF eru verðlaus en á móti lækka skuldbindingar og eignirnar komast aftur í eigu sveitarfélagsins með tíð og tíma.
- Hækkun á launaliðum en launaskerðingar undanfarinna ára ganga að hluta til baka.

Fjárhagsáætlunin einkennist af mörgum óvissuþáttum sem sérstaklega lúta að eignasölu og yfirfærslu eigna. Ef þessar áætlanir ganga að fullu eftir má gera ráð fyrir að skuldir bæjarsjóðs verði þó um 22 milljarðar að árinu loknu en ætla má að stórfelld eignasala liðinna ára verði til þess að daglegur rekstur sveitarfélagsins nái loks jafnvægi.

Samfylkingin hefur lengi gagnrýnt viðvarandi hallarekstur sjálfstæðismanna sem bjargað hefur verið fyrir horn á hverju ári með því að ganga jafnt og þétt á eignir bæjarins. Vegna þess að aðvaranir okkar til margra ára hafa verið hundsaðar er Reykjanesbær í þeirri stöðu að selja þarf eignir til að borga niður skuldir. Samfylkingin er því sammála að alvarlega fjárhagsstaða Reykjanesbæjar kalli á sölu Magma skuldabréfsins.
Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar eru aftur á móti alfarið andvígir því að selja nokkuð af hlut Reykjanesbæjar í HS-veitum. Samfylkingin í Reykjanesbæ er – og hefur verið – andvíg því að ein af grunnstoðum okkar samfélags - HS-veitur nú og þar áður HS-orka - verði seld til að bjarga bænum frá afleiðingum fjármálastjórnar sjálfstæðismanna. Aftur á móti vill Samfylkingin losa bæinn undan ábyrgð á rekstri Víkingaheima sem eingöngu hefur fylgt kostnaður fyrir samfélagið og fyrirsjáanlegt er að svo verði áfram.

Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar 2012 ber keim af erfiðleikum og þröngri stöðu í fjármálum sveitarfélagsins. Lítið svigrúm er til breytinga, á flestum sviðum er komið að ystu brún og enn þrengir að. Engu að síður leggja bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar fram tillögur að breytingum á einstökum liðum fjárhagsáætlunar þar sem lagt er m.a. til að Reykjanesbær felli alveg niður styrki til stjórnmálaflokka og minnki framlag til kynningarmála og lagt er til að fé verði veitt til stefnumótunar í ferðaþjónustu - ört vaxandi avinnugrein á Suðurnestum sem vantar viðmið til framtíðar – að auknu fé verði veitt til átaks í atvinnumálum og auknu fé veitt til barna- og ungmennastarfs.

Samfylkingin í Reykjanesbæ kallar eftir raunhæfari og skýrari sýn þar sem öllum möguleikum er upp velt í stað staðnaðrar framtíðarsýnar sjálfstæðismanna. Framtíðarsýn sem byggir á skynsemi í fjármálum, fjárfestir í ungu fólki og er íbúum til heilla. Hættum innantómum loforðaleik sem skaðað hefur samfélag okkar á liðnum árum, tökum höndum saman og gerum Reykjanesbæ að betri stað til að búa á.
Friðjón Einarssson
Guðný Kristjánsdóttir
Eysteinn Eyjólfsson