Bókasafnið sem samfélagsmiðstöð verði hluti af Menningarhúsinu Hljómahöll
„Á fundi bæjarráðs Reykjanesbæjar þann 24. nóvember 2022 var samþykkt af kjörnum fulltrúum allra flokka að skoða það hvort færa eigi Bókasafn Reykjanesbæjar í núverandi húsnæði Rokksafns Íslands í Hljómahöll. Það væri liður í því að efla Hljómahöll enn frekar sem menningarhús Reykjanesbæjar og styrkja daglega starfsemi í Hljómahöll. Bæjarstjóra var falið að skoða málið með starfsfólki Reykjanesbæjar; gera kostnaðaráætlun, skoða mögulega hönnun vegna breytinga á húsnæðinu að innan og skoða heildrænt hvort það sé góð hugmynd að færa bókasafnið í núverandi rými Rokksafnsins. Ef af ákvörðuninni yrði, myndi sambærileg vinna einnig fara fram um safnmuni Rokksafnsins, en margar hugmyndir eru uppi um hvort hægt sé að færa allt safnið eða hluta þess í aðrar byggingar, eða jafnvel halda hluta safnsins enn í núverandi húsnæði, enda vilji til þess að virða og miðla áfram tónlistarsögu Reykjanesbæjar.“ Þetta kemur fram í bókun sem allir bæjarfulltrúar Framsóknar, Samfylkingar, Beinnar leiðar og Umbótar lögðu fram á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ síðdegis.
Þá segir í bókuninni: „Rekstur Rokksafnsins hefur verið krefjandi í mörg ár en er á sama tíma ekki lögbundið verkefni. Bókasöfn eru skilgreind sem lögbundin verkefni sveitarfélaga. Miklar fjárfestingar eru framundan á næstu árum í sveitarfélaginu og því ljóst að takmarkað fjármagn er til verkefna sem ekki eru lögbundin. Einnig er ólíklegt að hægt verði að fjárfesta í nýju húsnæði fyrir bókasafnið á komandi árum, enda dýr framkvæmd. Það er eindreginn vilji bæjaryfirvalda að nýta allt húsnæði Reykjanesbæjar á sem hagkvæmastan hátt og að húsnæði bæjarins þjóni þörfum íbúa sem best.
Bókasafn Reykjanesbæjar hefur verið í Ráðhúsi Reykjanesbæjar síðan 2013. Undanfarin ár, með fjölgun íbúa og nýjum hugmyndum um starfsemi bókasafna, hefur þörfin fyrir stærra og hentugra húsnæði aukist. Með mögulegum flutningi fengi bókasafnið nýrra og stærra húsnæði en áður og hefði loks möguleika á að láta framtíðarsýn Reykjanesbæjar í málefnum bókasafnsins frá 2019 verða að veruleika.
Í framtíðarsýn bókasafnsins, sem er stefnumótandi skjal samþykkt af bæjaryfirvöldum, kemur m.a. fram að bókasöfn á Norðurlöndunum eru í auknum mæli að breytast í samfélagsmiðstöðvar og nokkurs konar almannarými þar sem boðið er upp á fjölbreytta þjónustu aðra en útlán bóka. Hér er því ekki verið að hugsa um að færa einungis bækur og bókahillur yfir í Hljómahöllina, heldur að bókasafnið sem samfélagsmiðstöð verði hluti af menningarhúsi þar sem fjölbreytt starfsemi fer fram.
Bókasafnið hefur undanfarin ár boðið upp á fjölbreytta viðburði öllum bæjarbúum að kostnaðarlausu, eins og upplestrarstund fyrir börn og fullorðna, foreldramorgna, listasmiðjur, fjölbreytta viðburði fyrir konur af erlendum uppruna, margs konar markaði sem styðja við deilihagkerfið og fleira. Í nýrra og stærra rými yrði betra pláss fyrir viðburði sem og lestrarrými, leiksvæði fyrir börn, kaffisölu og fleira. Hljómahöll yrði áfram vettvangur þar sem stærri tónleikar, veislur og viðburðir myndu fara fram m.a. í Bergi og Stapa.
Ef að flutningi bókasafnsins verður mun Reykjanesbær standa fyrir samráðsferli í takt við viðmið um íbúasamráð Sambands íslenskra sveitarfélaga, um uppbyggingu Hljómahallar sem enn öflugra menningarhúss þar sem leitast verður eftir að ná fram fjölbreytt sjónarmið bæjarbúa á öllum aldri.“