Bókasafnið opnar á nýjum stað
Bókasafn Reykjanesbæjar opnaði í dag í nýjum húsakynnum í Ráðhúsinu við Tjarnargötu 12. Að sjálfsögðu voru bókasafnsfánar dregnir að húni í tilefni dagsins, auk þess sem Reykjanesbær á 19 ára afmæli í dag.
Margir gestir hafa litið við í dag og líst yfir ánægju með aðstöðuna og starfsfólki er sönn ánægja að taka á móti bæjarbúum, sýna þeim aðstöðuna og kenna á nýja safnið, en ýmsar breytingar áttu sér stað við flutninginn. Nú deilir safnið rými með þjóðnustuveri bæjarins og inni í þessu sameiginlega rými verður rekið kaffihús fyrir gesti og gangandi.
Hópur af fastagestum Bókasafnsins kom færandi hendi í morgun með blómvönd í tilefni dagsins og fyrstu viðskiptavinirnir voru ekki lengi að láta sjá sig um leið og húsið opnaði klukkan 09:00. Safnið verður opið frá klukkan 09:00 til 19:00 alla virka daga í sumar.
Með tíð og tíma mun öll kjarnastarfsemi Reykjanerbæjar verða komin undir einn hatt í Ráðhúsinu, en flutningur Fræðsluskrifstofu úr Gamla barnaskólanum í Ráðhúsið er á döfinni.