Bókasafnið er sprungið
Bókasafn Reykjanesbæjar er með 1.246 metra af hillum í júlí 2021 og safnið gjörsamlega sprungið miðað við þá þjónustu sem íbúar Reykjanesbæjar eiga að fá að njóta. Til að ná lágmarki þarf safnið að minnsta kosti að fá 1.423 metra af hillum eins og safnkostur er í dag en það gefur safninu samt ekki kost á að þróast með stækkandi samfélagi. Þetta kemur fram í kynningu sem Stefanía Gunnarsdóttir, forstöðumaður bókasafns Reykjanesbæjar, hélt fyrir menningar- og atvinnuráð Reykjanesbæjar á dögunum.
Í þessum tölum er ekki reiknað með stærri nærgeymslu en geymslan er 385 hillumetrar í dag og þyrfti að stækka um helming, eða í 770 hillumetra, til að mæta þörfinni. Miðað við meðalfólksfjölgun í Reykjanesbæ samkvæmt byggðaspá Byggðastofnunar til tíu ára eru þarfir safnsins 2.000 metrar af hillum, eða 2.800 metrar ef stækkun á geymslu í Ráðhúsi er tekin með. Þá er áætlaður fermetrafjöldi safnsins um 2.300 svo að vel sé. Mikilvægt er að styrkja bókasafnið sem aðalsafn.
Reykjanesbær er fjórða stærsta byggðarlagið á landinu, því er mikilvægt að styrkja stoðir bókasafnsins sem aðalsafn miðað við þann fjölda sem safnið á að sinna. Bókasafn Reykjanesbæjar verður óhjákvæmilega leiðandi safn á Suðurnesjum sökum stærðar.
Um starfsemi bókasafnsins gilda bókasafnalög nr. 150/2012. Bókasöfn eru þjónustustofnanir sem starfa í þágu almennings og eigenda sinna og eru ekki rekin í hagnaðarskyni. Sameiginlegt markmið bókasafna, sem undir lög þessi falla, er að veita aðgang að fjölbreyttu safnefni og upplýsingum á mismunandi formi. Þau skulu efla menningar- og vísindastarfsemi, menntun, símenntun, atvinnulíf, íslenska tungu, ánægjulestur og upplýsingalæsi. Hlutverk bókasafna er að jafna aðgengi að menningu og þekkingu.