Boeing 747-8 við æfingar á Keflavíkurflugvelli
Ný flugvél frá bandarísku Boeing-verksmiðjunum, Boeing 747-8, lenti í Keflavík í gær og er ætlunin að prófa hana í hliðarvindi í íslenska haustinu næstu daga.
Þotan er um 76 metrar að lengd og vænghafið 68,5 metrar. Um er að ræða stærstu farþegaþotu sem Boeing hefur smíðað, hún mun taka 467 manns í sæti en í fyrstu verður aðeins boðið upp á fragtflugs-útgáfu. Öll hönnunin er ný og notuð margvísleg tækni sem einnig er fyrir hendi í Dreamliner-þotunni nýju. Fyrirtækið heitir þvi að þotan noti minna eldsneyti, mengi minna og valdi minni hávaða en aðrar breiðþotur.