Böðvar unir niðurstöðunni
Böðvar Jónsson segir það vissulega vonbrigði að hafa ekki náð tilætluðum árangri um helgina í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ. Hann bauð sig fram í annað sæti en hafnaði í því þriðja. Böðvar segist ætla að taka því sæti.
Gunnar Þórarinsson bauð sig fram í annað sætið á móti Böðvari og hafði betur. Árni Sigfússon hlaut rússneska kosningu í fyrsta sætið en fyrir utan hann og Böðvar skipar nýtt fólk framboðlista Sjálfstæðismanna. Svipað var uppi á teningnum í prófkjöri Samfylkingarinnar þar sem Friðjón Einarsson kom nýr inn og velti Guðbrandi Einarssyni, núverandi oddvita, úr sessi.
„Vissulega eru það vonbrigði að ná ekki tilætluðum árangri. Ég hef lagt mig mikið fram við vinnu fyrir Reykjanesbæ á síðasta kjörtímabili og unnið að þeim verkefnum eins samviskusamlega og mér hefur verið unnt. Í prófkjörinu eru reynsla og þekking látin víkja fyrir öðrum áherslum sem ekki er ljóst hverjar eru. Það sjáum við í fleiri prófkjörum um helgina þar sem reynslumiklir einstaklingar þurftu að víkja fyrir aðilum sem eru algjörlega reynslulausir í pólitík og lítið vitað enn fyrir hvað þeir standa.
Hvað mig sjálfan varðar mun ég að sjálfsögðu taka því sæti sem ég fékk samkvæmt lýðræðislegri niðurstöðu prófkjörsins. Þetta var gríðarlega fjölmennt og flott prófkjör og rúmlega 800 einstaklingar studdu mig til áframhaldandi starfa. Ég mun því vinna áfram að fullum krafti að þeim verkefnum sem við erum með í undirbúningi hér í Reykjanesbæ og leggja mitt að mörkum að tryggja Sjálfstæðisflokknum góða kosningu í vor,“ sagði Böðvar í morgun inntur eftir viðbrögðum við niðurstöðu prófkjörsins.
Víkurfréttir munu á dag birta fleiri viðbrögð efstu manna í prókjörum helgarinnar í Reykjanesbæ, þeirra Árna Sigfússonar, Friðjóns Einarssonar, Guðbrands Einarssonar og Gunnars Þórarinssonar.
---
VFmynd/pket – Tölurnar lesnar upp í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins um helgina.