Böðvar Jónsson: Athugasemd Guðbrands algjörlega fráleit
„Þau 12 ár sem ég hef verið í bæjarstjórn Reykjanesbæjar minnist ég þess aðeins einu sinni, hugsanlega tvisvar, að fjárhagsáætlun hafi verið send út áður en fyrri umræða fer fram. Hin hefðbundna meðferð er hins vegar sú að leggja fjárhagsáætlun fram á þeim fundi sem fyrri umræða fer fram, alveg eins og gert var nú í ár við framlagningu á síðasta bæjarstjórnarfundi,“ segir Böðvar Jónsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks og formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar, inntur eftir viðbrögðum um gagnrýni Guðbrands Einarssonar, oddvita A-lista, vegna framsetningu fjárhagsáætlunar 2010.
Böðvar segir fjárhagsáætlunina aðeins seinna á ferðinni nú en stundum áður þar sem fyrri bæjarstjórnarfundur mánaðarins hitti á 1.desember og áætlunin var ekki tilbúin þá.
„Við erum þó ekki seinna á ferðinni en flest sveitarfélög í kringum okkur. Það var svo samkomulag milli flokkanna að taka síðari umræðu í byrjun janúar í stað þess að halda aukafundi um fjárhagsáætlunina sem kallar á kostnaðarauka fyrir sveitarfélagið,“ segir Böðvar.
„Ég veit ekki af hverju oddviti minnihlutans er svo óskaplega pirraður yfir þessu. Ég vona að jólaundirbúningurinn sé ekki að fara svona illa í hann. Ef hann móðgast yfir hefðbundinni meðferð og afgreiðslu mála í bæjarstjórn verður hann að eiga það við sjálfan sig. Sú athugasemd að verið sé að koma í veg fyrir umræðu um málið er algjörlega fráleit og ekki einu sinni svaraverð,“ sagði Böðvar Jónsson í samtali við VF.
Tengd frétt: