Blindaðist af sól og velti bíl
Ökumaður sem var á ferð eftir Garðskagavegi um helgina blindaðist af sól og missti stjórn á bifreið sinni með þeim afleiðingum að hún hafnaði utan vegar, fór eina veltu og stöðvaðist á hjólunum. Þegar lögreglan á Suðurnesjum kom á vettvang voru sjúkraflutningamenn að hlúa að ökumanninum, sem var einn í bifreiðinni. Hann kvaðst ekki finna til neinna eymsla, en var þó fluttur með sjúkrabifreið á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til öryggis.