Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Blíða KE: Makríll á handfæri með 400 króka
Laugardagur 10. júlí 2010 kl. 13:53

Blíða KE: Makríll á handfæri með 400 króka

Makrílveiðar á handfæri eru tiltölulega nýr veiðiskapur á Íslandi. Um síðustu helgi hélt Blíða KE 17 til handfæraveiða á makríl. Skipstjóri á Blíðu KE er Albert Sigurðsson. Hann þekkir vel til makrílsins og hegðunar hans og var m.a. skipstjóri á átta þúsund tonna verksmiðjuskipi við Máritaníu undan ströndum Afríku.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Undanfarnar vikur hefur verið unnið að því að búa Blíðu KE til veiðanna. Settar voru upp átta handfæravindur og þeim má öllum stjórna frá sama stað á skipinu þ.e. aftan við brú. Færi og slóðar frá vindunum fara síðan eftir kúnstarinnar reglum um allt skip og í sjó um gálga sem settir hafa verið á skipið. Samtals eru um 400 krókar á slóðunum sem notaðir eru við veiðarnar og eru að vinna hverju sinni.

Blíða KE er búin til veiða af norskri fyrirmynd, þ.e. rúllur og svokallaðir afslítarar, sem slíta fiskinn af krókunum sjálfkrafa. Rennur, gálgar og annar búnaður er sniðinn að bátnum.

Talsvert af makríl í Faxaflóa

Albert fór í prufutúr fyrir síðustu helgi og fann talsvert af makríl í Faxaflóa og fékk fisk í miðjum flóanum. Það er einnig staðfesting á makrílgöngu í Faxaflóa að stangveiðimenn eru að moka upp makríl af bryggjunni í Garði.

Gefinn hefur verið út 3000 tonna kvóti vegna makrílveiða á handfæri og má segja að þar gildi reglan „fyrstur kemur, fyrstur fær“. Albert segir að beita þurfi sérstakri veiðitækni við krókaveiðarnar, sem hann er nú að ná tökum á. Hann kannist við hegðun makrílsins frá því hann var við veiðar á honum í flottroll við Máritaníu. Skipið sem Albert var með í Afríku var hins vegar af þeirri stærðargráðu að Blíða KE er eins og björgunarbátur á því skipi.

Í áhöfn Blíðu KE verða eingöngu þrír en auk Alberts skipstjóra verða þeir Sigurpáll Hjörvar Arnarson vélstjóri og Bjarki Rúnar Arnarsson stýrimaður.

Kælingin skiptir mestu máli

Albert segir að veiðarnar verði stundaðar allan sólarhringinn og byggist á því að setja út færið og draga það inn jafnóðum aftur. „Ef það er fiskur sem bítur á, þá erum við að 24 tíma á sólarhring, eða þar til búið er að fylla lest. Ef það kemur fiskur inn á sónarinn þá setjum við fyrst út tvær rúllur og síðan er skipinu beitt á viðeigandi hátt. Ef makríllinn sýnir sig og bítur á, þá er restin sett út samkvæmt formúlunni. Krókarnir eru síðan hífðir upp í gegnum afslítarann, krókarnir komast í gegn en ekki fiskurinn. Þaðan fer fiskurinn í rennu og eftir rörum niður í lest,“ segir Albert. Það á síðan eftir að koma í ljós hvað hver veiðiferð verði löng. Makríllinn verður ísaður í lest en reynsla á eftir að koma á það hvað hráefnið þoli langa geymslu án þess að tapa gæðum. Kælingin skiptir mestu máli, segir Albert.

Hráefni sem fæst með handfæraveiðum er gjarnan miklu ferskara heldur en ef það væri veitt í nót eða flottroll. M.a. er engin pressa á þessum fiski þannig að þetta er eins gott hráefni og hugsanlegt er að ná í til framleiðslu á gæðavöru.

Að sögn Alberts er ennþá verið að vinna í markaðssetningu afurða af Blíðu KE en ljóst að hráefnið er tilvalið til framleiðslu á úrvalsvöru.


Efsta mynd: Bjarki Rúnar Arnarsson stýrimaður, Albert Sigurðsson skipstjóri og Sigurpáll Hjörvar Arnarson vélstjóri.
Viðtal og myndir: Hilmar Bragi Bárðarson