Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Bleikjurnar verða að bíða
Mánudagur 17. júlí 2006 kl. 13:10

Bleikjurnar verða að bíða

Ekkert verður af því að bleikjuseiðum verði komið fyrir í Sandgerðistjörnum að sögn Reynis Sveinssonar, forstöðumanns Fræðasetursins í Sandgerði. Víkurfréttir greindu frá því fyrr á þessu ári að til stæði að athuga hvort nýta mætti Sandgerðistjarnir undir bleikjuseiði og sjá hvort fiskurinn myndi þrífast þar.

Bæjarstjórn Sandgerðisbæjar ákvað að aðhafast ekki nánar í málinu því bleikjueldi eða seiðasleppingar í Sandgerðistjarnir hefðu kallað á heljarmiklar rannsóknir sem voru of kostnaðarsamar. „Grunnrannsóknir hefðu kostað á bilinu 500-600 þúsund krónur en þetta hefði einnig kallað á víðtækari rannsóknir við tjarnirnar,“ sagði Reynir Sveinsson í samtali við Víkurfréttir.

Reynir sagði einnig að við mörgum þáttum í þessu máli hefði þurft að fá skýr svör svo hægt væri að sleppa bleikju í tjarnirnar en allar tjarnir á Suðurnesjum eru friðaðar. „Spurningar eins og hvað bleikjan ætti að éta, hvort hún væri að taka æti frá fuglinum og þar fram eftir götum hefði þurft að svara og þetta kallaði á of mikið fjármagn,“ sagði Reynir að lokum.

Veiðmenn verða því að bíða með að renna fyrir bleikju í Sandgerðistjörnum en Reynir lét í veðri vaka að þráðurinn yrði kannski tekinn upp síðar ef áhugi kviknaði fyrir verkefninu.

[email protected]


 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024