Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Bleiki dagurinn í dag -  Suðurnesjakona hönnuður slaufunnar
Föstudagur 8. október 2010 kl. 13:48

Bleiki dagurinn í dag - Suðurnesjakona hönnuður slaufunnar


Í dag er Bleiki dagurinn og klæðast margir bleikum fatnaði til að sýna samstöðu í baráttunni gegn krabbameinum hjá konum.

Bleika slaufan, árvekni- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélags Íslands, hófst formlega fyrir viku og hefur félagið sett sér það markmið að selja 50 þúsund slaufur fram til 15. október þegar slaufusölunni lýkur. Fjáröflunin mun skila sér í meiri fræðslu, forvörnum og ráðgjöf til almennings um allt er tengist konum og krabbameinum.

Þess má geta að hönnuður slaufunnar er Suðurnesjakona en hún heitir Ragnheiður I. Margeirsdóttir.  Ragnheiður bar sigur úr býtum í hönnunarsamkeppni um bleiku slaufuna sem Krabbameinsfélagið og Hönnunarmiðstöð Íslands efndu til.  Það var mat dómnefndar að hönnun Ragnheiðar bæri af en hún sótti innblástur í þjóðararfinn. Munstrið í slaufunni kemur frá skúfnum í skotthúfunni, sem er hluti af íslenska þjóðbúningnum.

Á myndinni ery þær Guðný Zita og Sigurbjörg hengdu bleika slaufu í hvora aðra hér í
Reykjanesbæ í tilefni af árveknismánuði Krabbameinsfélagsins. Þær Guðný og Sigurbjörg hafa báðar háð baráttu við brjóstakrabbamein. Þær stöllur eru nýkomnar heim af Norrænni ráðstefnu sem haldin var í Danmörku. Þann 26. október næstkomandi verður haldið málþing um brjóstakrabbamein í Safnaðarheimili Hafnarfjarðarkirkju og eru allir hvattir til að mæta.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024