Blaut flugeldasýning
Eitthvað hljóp í veðurguðina í gærkvöldi þegar Björgunarsveitin Suðurnes hélt sína árlegu flugeldasýningu við höfuðstöðvar björgunarsveitarinnar að Holtsgötu 51 í Njarðvík. Rétt í þann mund sem flugeldunum var skotið á loft brast á með ískaldri rigningu. Það kom þó ekki í veg fyrir að fjöldi gesta á skemmtun sveitarinnar gat notið glæsilegrar sýningar.
Björgunarsveitin Suðurnes er með tvo flugeldamarkaði í Reykjanesbæ í ár. Aðal sölustaðurinn er að Holtsgötu 51 þar sem björgunarsveitin hefur sínar höfuðstöðvar efst á Holtsgötunni í hlíðum Grænáss. Þá er einnig sölustaður í gámum við Reykjaneshöllina. Sölustaðirnir eru opnir daglega frá kl. 10-22 og á gamlársdag frá kl. 10-16. Sölufólkið er rækilega merkt björgunarsveitunum.
Meðfylgjandi myndir voru teknar á flugeldasýningunni í gær þar sem ljósmyndarinn varð að játa sigur regndropanna.
Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi