Blái herinn vekur athygli í Aþenu
- sem fyrirmyndarframtak almennings.
Umhverfis- og hreinsunarsamtökin Blái herinn, sem Tómas J. Knútsson stofnaði árið 1995, voru tekin sem dæmi um fyrirmyndarframtak almennings á stórri umhverfisráðstefnu í Aþenu á dögunum. Sagt var frá þessu í Sunnudagsmogganum.
Keflvíkingurinn Guðfinnur Sigurvinsson, upplýsingafulltrúi Umhverfisstofnunar, kynnti samtökin fyrir táðstefnugestum og segir hann í samtali við Morgunblaðið að framtakið hafi vakið mikla athygli gesta, en markmið með ráðstefnunni er meðal annars að undirbúa skýrslu sem kemur út á fimm ára fresti og fjallar um ástand, horfur og leiðir til úrbóta í umhverfismálum í Evrópu. Sérstaklega var rætt um aðkomu almennings að því að bæta umhverfið.
Tómas J. Knútsson ásamt Ómari Ragnarssyni þegar sá fyrrnefndi var verðlaunaður á Degi íslenskrar náttúru.
Guðfinnur segir að ein leið til vænlegs árangurs sem rædd hafi verið á ráðstefnunni væri að taka málið úr stóra samhenginu og færa heim í hérað og vekja athygli á fólki sem lætur ekki bjóða sér meira og tekur af skarið og er öðrum hvatning. Í umræðu um plastmengun í framhaldi á því nefndi Guðfinnur að á Íslandi starfaði kafarinn Tómas Knútsson sem hefði í tæp 20 ár hreinsað strendur Suðurnesjamanna með stórtækum vinnuvélum í sjálfboðavinnu og ekki alltaf haft nauðsynlegan skilning, hvað þá stuðning. „Fólk var gapandi hissa á að svona maður væri til á byggðu bóli og hefði haft úthald í öll þessi ár og það birti yfir fólki að heyra af þessu og aukinn kraftur komst í umræðuna,“ segir Guðfinnur í viðtalinu. Öllum hafi borið saman um að svona fólk ætti að fá sem mest sviðsljós því það sanni ótvírætt mátt hvers og eins.