Bláfánanum flaggað í fyrramálið
– alþjóðleg umhverfisviðurkenning til smábátahafnarinnar í Grófinni
Bláfánanum verður flaggað við smábátahöfnina í Gróf í Keflavík kl. 10 í fyrramálið. Landvernd mun afhenda Reykjaneshöfn Bláfánann. Engin sérstök athöfn verður að þessu tilefni önnur en sú að fáninn verður dreginn að húni.
Bláfáninn er alþjóðleg umhverfisviðurkenning sem veitt er smábátahöfnum og baðströndum sem er veitt af alþjóðlegum samtökum um umhverfismennt, Foundation for Environmetal Education (FEE). Landvernd hefur verið fulltrúi FEE á Íslandi frá árinu 2001. Bláfánaverkefnið varð til árið 1985 í Frakklandi og hefur það breiðst út um allan heim á síðustu árum. Verkefnið hvetur yfirvöld til að stuðla að hreinu umhverfi, bættri umgengni og aukinni fræðslu og kynningu á haf- og strandsvæðum.
Til að hljóta Bláfánann þarf Reykjaneshöfn að standast kröfur um góða þjónustu og öryggisbúnað við höfnina ásamt því að veita upplýsingar og fræðslu sem stuðla að bættri umgengni við hafið og verndun umhverfisins. Með þetta að leiðarljósi má vernda umhverfi hafnarinnar og alla þá þjónustu sem höfnin býður upp á íbúum og gestum til hagsbóta, segir í tilkynningu.