Bláa lónið vinsælt til bónorða
Breska ferðaskrifstofan Thomson Travel lét nýverið framkvæma könnun á því hver væri rómantískasti staðurinn til þess að bera upp bónorð. Í ljós kom að 75% Breta kýs að bera upp bónorðið við sólsetur og var kvöldstund í Bláa lóninu – heilsulind þar í efsta sæti en frá þessu er greint á vef Bláa lónsins.
Könnunin leiddi einnig í ljós að breskir karlmenn eru nokkuð hefðbundnir í vali á bónorðsstað á meðan konurnar kjósa ævintýralegri staði. Karlmennirnir álitu gondólaferð um síki Feneyja vera góðan kost en konurnar töldu Reykjavík vera rómantískasta staðinn til bónorða. Þær virðast heillast af samspili kuldans og heita vatnsins en sundlaugar Reykjavíkur þóttu mest heillandi staðurinn til þess að fá bónorð frá sínum heittelskaða.