Bláa lónið sýknað af kröfu um skaðabætur
Hæstiréttur hefur sýknað Bláa lónið hf af kröfu manns um skaðabætur eftir að eiginkona hans drukknaði í lóninu. Maðurinn hélt því fram að slysið yrði rakið til hættueiginleika baðstaðarins. Þá hefðu fyrirsvarsmenn Bláa lónsins hf. ekki farið að fyrirmælum um að grynnka lónið, viðvörunarmerki hefðu verið ófullkomin og leitin að konunni hefði verið ómarkviss. Talið var ósannað að Bláa lónið hf. hefði ekki farið eftir öllum kröfum þess opinbera aðila sem fór með eftirlit með starfsemi þess. Þá hefði baðstaðurinn verið merktur um hættuleg svæði í afgreiðslu og búningsklefa en sérstök öryggislína greindi að grynnri og dýpri hluta lónsins. Jafnframt hefði starfsfólkið verið þjálfað til að bregðast við hættuástandi en sérstaklega hefði verið óskað eftir því við fararstjóra og leiðsögumenn að varað yrði við hættum lónsins. Með framangreint í huga og þær aðstæður sem sköpuðust við upphaf leitar að konunni þótti ósannað að Bláa lónið hf. og starfsmenn hans hefðu ekki gert allt sem í þeirra valdi stóð til að koma í veg fyrir að slys sem þetta gerðist og reynt að afstýra því að svo færi sem fór. Var Bláa lónið hf. því sýknað af kröfum mannsins, segir á Vísi.is