Bláa lónið með í risa markaðsátaki
Bláa lónið er á meðal fyrirtækja innan Samtaka Ferðaþjónustunnar sem taka þátt í markaðsátaki til kynningar á Íslandi erlendis og leggur Bláa Lónið til 4 milljónir króna til verkefnisins. Alls verður varið um 700 milljónum króna til átaksins. Ríkið leggur til 350 milljónir og Reykjavíkurborg, Icelandair, Iceland Express, Útflutningsráð og Samtök ferðaþjónustunnar leggja fram annað eins til átaksins. Þá leggur Markaðsstofa Suðurnesja til hálfa milljón króna.
Í ávarpi Katrínar Júlíusdóttur ferða- og iðnaðarráðherra á Ferðamálaþingi í dag kom m.a. fram að um væri að ræða stærsta markaðsátak Íslands þar sem allir landsmenn yrðu fengnir til að leggja sitt lóð á vogarskálarnar. Fyrirtæki í ferðaþjónustu yrðu drifkrafturinn og framleiddu kynningarefni en öllum yrði boðið að nota það efni. Þannig vildu menn gera alla Íslendinga að sendiherrum og einnig yrði kappkostað að virkja í verki alla Íslandsvini til að sýna fram á að það væri aldrei meira spennandi en nú að sækja Ísland heim.
Mynd: Bláa lónið