Bláa Lónið lokar starfsstöðvum tímabundið
Í ljósi heimsfaraldurs Covid-19 og fyrirmæla íslenskra yfirvalda um hert samkomubann hefur Bláa Lónið lokað starfstöðvum sínum tímabundið frá og með deginum í dag til og með 30. apríl nk. Lokunin tekur til starfsemi fyrirtækisins í Svartsengi og verslana á Laugaveginum og í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
„Á tímum sem þessum er mikilvægt að við stöndum saman og gerum það sem í okkar valdi stendur til að hefta útbreiðslu Covid-19. Við vonumst til að hægt verði að opna fyrr en útilokum þó ekki framlengingu lokunar. Það mun koma í ljós eftir því sem þróuninni vindur fram hérlendis og ekki síður erlendis næstu vikur en um 98% af gestum Bláa Lónsins eru erlendir ferðamenn.
Hvað varðar áhrif lokunarinnar á störf þá verður reynt að verja þau eins og hægt er. Verið er að meta stöðuna þessa stundina en horft verður til úrræðis ríkisstjórnarinnar um greiðslu atvinnuleysisbóta vegna minnkandi starfshlutfalls,“ segir Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa Lónsins, í tilkynningu.
Bláa Lónið hefur virt í hvíhvetna tilmæli yfirvalda og viðhaldið nánu samstarfi við sóttvarnarlækni frá upphafi, segir jafnframt í tilkynningunni. Neyðar- og viðbragðsáætlanir fyrirtækisins hafa sannað gildi sitt. Öflugt öryggistreymi hefur staðið vaktina dag og nótt til að tryggja að fyrirmælum yfirvalda sé fylgt og þannig öryggi starfsfólks okkar og gesta.
„Með því að loka nú erum við ekki síður að horfa til þess að vernda starfsfólk og draga úr smithættu þess en hjá fyrirtækinu starfa tæplega 800 manns“, segir Grímur.
„Þó að starfstöðvum verði lokað þá mun starfsemin ekki öll stöðvast. Við munum einbeita okkur að innri verkefnum, viðhaldsmálum, viðskiptaþróunarmálum, stafrænni þróun og markaðsmálum. Markmið okkar verður að bæta enn upplifun gesta okkar og þjónustu þannig að þegar opnað verður á ný séum við tilbúin í öfluga viðspyrnu,“ segir í tilkynningunni.