Bláa Lónið lækningarlind opnuð formlega
Bláa Lónið – lækningalind var formlega opnuð í dag en í tilefni opnunarinnar afhjúpuðu þeir Jón Kristjánsson, heilbrigðisráðherra, og Eðvarð Júlíusson, stjórnarformaður Bláa Lónsins hf, áletraða hraunhellu sem táknar upphaf framkvæmda við lækningalindina, en þeir losuðu helluna þann 7. janúar 2004. Keflavíkurverktakar voru aðalverktakinn við byggingu lindarinnar.
Lækningalindin tekur við af bráðabirgðahúsnæði og býður upp á kraftmikið náttúrulegt umhverfi sem hefur endurnærandi áhrif á líkama og hug. Böðun í BLUE LAGOON jarðsjó sem þekktur er fyrir lækningamátt og einstök virk efni: steinefni, kísil og þörungar er mikilvægasti þáttur meðferðarinnar og er lón lækningalindarinnar sérhannað með þarfir meðferðargesta í huga. Rúmgóð innilaug fyllt BLUE LAGOON jarðsjó er einnig í lækningalindinni.
Fimmtán nýtískulega hönnuð, björt og rúmgóð tveggja manna gistiherbergi eru í boði fyrir gesti lækningalindarinnar. Rúmgóður veitingasalur er í lækningalind ásamt setustofu með sjónvarpi þar sem gestir geta slakað á og notið samverunnar. Gestir hafa einnig aðgang að vel búnum tækjasal þar sem stunda má líkamsrækt og skjólgóðum garði til útiveru og hvíldar.
Lækningalindin, sem er samvinnuverkefni íslenskra stjórnvalda og Bláa Lónsins hf stórbætir þjónustu við íslenska psoriasissjúklinga og er tímamótaverkefni í heilsutengdri ferðaþjónustu á Ísland .
Jón Þrándur Steinsson, húðlæknir er yfirlæknir lækningalindarinnar og Ragnheiður Alfreðsdóttir er hjúkrunarforstjóri
VF-myndir/Páll Ketilsson
Hér má finna myndasafn frá opnuninni