Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Bláa Lónið hlýtur alþjóðlega gæðavottun
Þriðjudagur 19. september 2023 kl. 11:51

Bláa Lónið hlýtur alþjóðlega gæðavottun

Bláa Lónið hefur hlotið alþjóðlega gæðavottun B Corp. Markmið B Corp vottunar er að umbylta viðskiptaháttum með því að fá fyrirtæki til að meta þau áhrif sem starfsemi þeirra hefur — til dæmis á umhverfi, einstaklinga og samfélög til jafns við fjárhagslegan gróða. Í úttektarferlinu er því litið til þessara áhrifa auk þess sem stjórnarhættir eru rýndir. Þannig staðfestir B Corp vottun að fyrirtæki nýti krafta sína raunverulega til góðs og taki meðal annars tillit til sjálfbærni, jafnréttis og umhverfis þegar viðskiptaákvarðanir eru teknar. 

Allt frá stofnun hefur Bláa Lónið lagt áherslu á umhverfismál og ábyrgð í viðskiptaháttum með það að leiðarljósi að skapa verðmæti fyrir samfélagið allt. Með vottuninni staðsetur Bláa Lónið sig í hópi fyrirtækja sem eru í fararbroddi í sjálfbærnimálum og uppfylla strangar kröfur um ábyrga og gagnsæja starfsemi. Í þessum hópi eru fyrirtæki á borð við Patagonia, The Guardian, illy, TOMS, Davines, Alpro og 66°Norður sem þegar hafa hlotið B Corp vottun, segir í frétt frá Bláa Lóninu.

Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa Lónsins, var að vonum ánægður með vottunina og niðurstöðu fyrirtækisins í ströngu úttektarferlinu: „Frá upphafi hefur markmið Bláa Lónsins verið að stuðla að aukinni vellíðan með fjölnýtingu náttúruauðlinda í sátt við umhverfið. Þetta markmið hefur mótað leiðarstefið okkar, Wellbeing for people and planet,“ segir Grímur. „Alþjóðleg vottun B Corp er staðfesting á þeim frábæra árangri sem þegar hefur náðst í sjálfbærnimálum á sama tíma og hún vísar okkur veginn í átt að enn frekari framförum. Við einsetjum okkur að nýta krafta okkar áfram til góðra verka, ekki bara á Íslandi heldur á heimsvísu.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Nille Skalts, stofnandi og framkvæmdastjóri B Corp á Norðurlöndunum, gladdist einnig yfir áfanganum: „Það er mér sönn ánægja að bjóða Bláa Lónið velkomið í samfélag B Corp vottaðra fyrirtækja. Sú hugmyndafræði sem einkennir starfsemi Bláa Lónsins mun auðga það starf sem við vinnum til að ná markmiðum okkar um réttlátt og gagnsætt hagkerfi í þágu umhverfis og samfélaga um allan heim,“ sagði Nille og bætti við: „Bláa Lónið verður B Corp samfélaginu án efa mikill innblástur enda getum við lært margt af þeirri framúrskarandi vinnu sem þar er unnin. Með vottuninni gengur Bláa Lónið til liðs við yfir 85 norræn fyrirtæki sem stefna að hærra markmiði og leggja sig á hverjum einasta degi fram um að nýta krafta sína til góðs.“ 

Auk jarðhitalónsins hefur Bláa Lónið getið sér gott orð fyrir rekstur heilsulinda, gistiþjónustu og veitingastaða á heimsmælikvarða. Þá hefur húðvörulína félagsins hlotið mikla eftirtekt. Vörulínan byggir á lækningamætti jarðsjávarins og er þróuð með vísindi og virkni að leiðarljósi. Við framleiðsluna er sérstök áhersla lögð á rannsóknir og nýsköpun, sjálfbæra vinnslu og umhverfisvænar umbúðir. 

Vottun B Corp nær til allra fyrrnefndra eininga auk stoðeininga félagsins í Urriðaholti. 

Bláa Lónið fékk 98,6 stig í úttektarferlinu en til að hljóta vottun þurfa fyrirtæki að lágmarki 80 stig. Í dag eru yfir sjö þúsund fyrirtæki í ríflega 90 löndum og 160 atvinnugreinum með B Corp vottun.