Bláa lónið gerir landeigendum í Grindavík tilboð í 5.500 hektara
Landeigendur í Grindavík íhuga nú tilboð Bláa lónsins í 5.500 hektara af óskiptu landi á svæðinu. Þeir sem búa á lóðunum eru uggandi um framvindu mála og bæjarstjóri Grindavíkur segir bæinn vilja eignast landið. Þverpólitískur hópur dreifir bréfum í hús þar sem væntanlegir seljendur eru beðnir um að skoða önnur og farsælli tilboð.
Landeigendafélag Járngerðastaða og Hópstorfu fer með umboð rúmlega 70 eigenda að óskiptu landi. Að sögn Ólafs Á. Jónssonar, forsvarsmanns félagsins, barst tilboð upp á 715 miljónir króna í landið. Hvort selt verður skýrist á fundi félagsins á laugardag en Ólafur segir að meirihlutinn sé jákvæður og í raun sé tilboðið bindandi. Rúmlega hundrað íbúðarhús eru á svæðinu, auk Bláa lónsins og náma. Ólafur telur íbúa á lóðunum ekki þurfa að hafa áhyggjur.
Af www.ruv.is