Bláa Lónið gengur til liðs við Festu
– miðstöð um samfélagsábyrgð
Bláa Lónið hefur gengið til liðs við Festu – miðstöð um samfélagsábyrgð. Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa Lónsins hf, og Ketill B. Magnússon, framkvæmdastjóri Festu, handsöluðu samkomulag þess efnis nýverið á skrifstofu Festu sem staðsett er í Háskólanum í Reykjavík.
Grímur Sæmundsen sagði að allt frá stofnun Bláa Lónsins hefði fyrirtækið lagt áherslu á að sýna ábyrgð gagnvart samfélaginu. Með því að ganga til liðs við Festu innleiðir Bláa Lónið samfélagsábyrgð í starfsemi fyrirtækisins með enn markvissari hætti.
Ketill Magnússon sagði að það væri fagnaðarefni að fá Bláa Lónið sem er leiðandi fyrirtæki í íslenskri ferðaþjónustu til liðs við Festu. Ferðaþjónustan er nú ein af okkar mikilvægust atvinnugreinum og mun vægi hennar einungis aukast á næstu árum. Það er því sérlega ánægjulegt og mikilvægt að í ferðaþjónustunni séu fyrirtæki sem gangi á undan með góðu fordæmi og viðhafi samfélagslega ábyrga starfshætti.
Festa, miðstöð um samfélagsábyrgð var stofnuð í október 2011. Markmið með stofnun miðstöðvarinnar er að leita bestu aðferða fyrir fyrirtæki við innleiðingu á stefnu um samfélagsábyrgð, stuðla að vitundarvakningu um samfélagsábyrgð fyrirtækja og hvetja til rannsókna á viðfangsefninu í samstarfi við háskólasamfélagið. Í sinni einföldustu mynd felst samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja og stofnana í því að þau axli ábyrgð á þeim áhrifum sem þau hafa á fólk og umhverfið.