Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Bláa lónið fær útflutningsverðlaun
Miðvikudagur 21. apríl 2004 kl. 22:58

Bláa lónið fær útflutningsverðlaun

Bláa lónið fékk útflutningsverðlaun forseta Íslands í dag. Fyrirtækið þykir hafa náð ágætum árangri í markaðsetningu erlendis og hafa mikið aðdráttarafl. Bláa lónið hefur samið við húðvörufyrirtæki í Japan um notkun á vörumerki Bláa lónsins á vörur þar í landi.
Forseti íslands Ólafur Ragnar Grímsson afhenti Eðvarði Júlíussyni stjórnarformanni  og Grími Sæmundssyni framkvæmdastjóra verðlaunin við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í dag. Þetta var í 16. sinn sem útflutningsverðlaunin voru afhent.
Ólafur Ragnar hafði á orði að fyrir tilstuðlan Bláa lónsins hefði nýtt kennileiti orðið alþekkt hjá erlendum ferðamönnum. Eitt sinn hefði verið þrenningin Þingvellir, Gullfoss og Geysir, nú væri Bláa Lónið jafnvel orðið þekktara og því hefði enginn trúað þegar menn fóru af stað. Fyrstu hugmyndir um heilsulind við Svartsengi hefðu talist draumórar.
Grímur segir verðlaunin hvatningu og notalegt að finna að eftir sé tekið hvað fyrirtækið hefur verið að gera. Nú er unnið að byggingu nýrrar deildar fyrir psoriasis sjúklinga við Bláa lónið sem taka á í gagnið að ári.
Bláa lónið hefur gert samning við japanskt húðvörufyrirtæki um að það noti merki Bláa lónsins á vörur þess japanska. Bæði verður greitt fyrir notkun merkisins og svo fást líka árangurtengdar greiðslur.
Hagnaður Bláa lónsins var um 25 miljónir í fyrra og  rekstartekjur þess 660 miljónir.

 

Ræða Gríms Sæmundssen við afhendingu verðlaunanna í dag.

Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson,  góðir gestir.
Ég þakka þann heiður, sem starfsmönnum og eigendum Bláa Lónsins hf er sýndur með því að veita fyrirtækinu Útflutningsverðlaun forseta Íslands árið 2004.
Ég tel,  að þessa viðurkenningu beri einna hæst af þeim, sem veittar eru í íslensku atvinnulífi, og skapi þeim fyrirtækjum, sem hana hljóta, sérstakan virðingarsess.
Mörg glæsileg og öflug fyrirtæki eru í hópi þeirra, sem hlotið hafa Útflutningsverðlaun forseta Íslands.
Við erum stolt af því, að Bláa Lónið er nú að þessu leyti í hópi Samherja, Delta, Bakkavarar og Flugleiða, svo að nokkur fyrirtæki séu nefnd.
Í þessu ljósi fylgir ekki aðeins mikil hvatning  þessum verðlaunum, heldur einnig ábyrgð.
Þau leggja okkur þá ábyrgð á herðar, að fylgja eftir þeim árangri, sem þegar hefur náðst, og standa undir væntingum um vöxt og velgengni í framtíðinni.
Þótt  Bláa Lónið sé nú handhafi Útflutningsverðlauna forseta Íslands, lítum við, sem störfum hjá fyrirtækinu einnig svo á, að verið sé að veita allri ferðaþjónustu á Íslandi viðurkenningu hér í dag.
Mikil gróska og vöxtur er í íslenskri ferðaþjónustu, og nú er loks svo komið, að mönnum er almennt orðið ljóst, hve gríðarlega mikilvæg þessi atvinnugrein er íslensku þjóðarbúi, og ekki síður hve vaxtarmöguleikar hennar eru miklir.
Bláa Lónið hf er grindvískt fyrirtæki með aðsetur og starfsemi útá hraunbreiðunni í Svartsengi á Reykjanesi.
Starfsemi fyrirtækisins er á þremur sviðum: rekstur Bláa lónsins – heilsulindar, þróun og markaðssetning á  BLUE LAGOON húðvörum og rekstur rannsókna- og húðlækningastöðvar, sem byggir á einstökum lækningamætti jarðsjávarins, er Hitaveita Suðurnesja dregur úr iðrum jarðar í Svartsengi.
Bláa Lónið opnaði nýja heilsulind sumarið nítján hundruð níutíu og níu  með viðhöfn að viðstöddum forseta Íslands, herra Ólafi Ragnari Grímssyni.
Forsetinn og síðar forsetafrúin Dorrit Moussaief hafa ávallt síðan verið sérstakir velunnarar Bláa Lónsins og vil ég nota þetta tækifæri til að þakka þeim  fyrir það.
Við opnun heilsulindarinnar urðu vatnaskil í rekstri Bláa Lónsins.
Ég leyfi mér að halda því fram, að með þessari framkvæmd, hafi fyrirtækið tekið að sér forystuhlutverk við uppbyggingu og markaðssetningu heilsutengdrar ferðaþjónustu á Íslandi.
Við opnun nýrrar húðlækningastöðvar í Svartsengi næsta vor mun þetta forystuhlutverk eflast enn frekar að mínu mati.
Í kjölfar frumkvæðis Bláa Lónsins  hefur myndast stóraukinn áhugi á því, að skapa Íslandi sess sem heilsulandi, og nýta betur þau stórkostlegu hráefni, sem við eigum í því skyni, s.s. hreint loft, hreint vatn, heilnæm matvæli og lækningamátt jarðvarmans.
Eitt meginverkefni Bláa Lónsins nú, er uppbygging vörumerkisins BLUE LAGOON ICELAND.
Þær framkvæmdir sem ég minntist hér áður á, og sú starfsemi, sem þeim tengist,  auk  framleiðslu  félagsins á húðvörum, hafa styrkt vörumerkið BLUE LAGOON ICELAND verulega.
Nú er svo komið, að vörumerkið er í hópi þekktustu vörumerkja Íslands erlendis.
Til marks um þetta, hefur félagið nú veitt erlendu stórfyrirtæki, heimild til að nota vörumerkið í ákveðnu verkefni gegn þóknun.
Tekið skal fram, að umrætt verkefni mun aðeins styrkja vörumerki okkar á viðkomandi markaðssvæði og ekki á nokkurn hátt hefta okkur í, að sækja fram á markaðssvæðinu með vörumerkið, þegar við teljum rétta tímann  til þess.
Mér er ekki kunnugt um, að samningur, eins og hér er lýst, hafi áður verið gerður á Íslandi.


Ágætu gestir.

Það er merkilegt, að maður upplifir oft, að Íslendingum finnist mörgum, sem þeir eigi í Bláa lóninu.
Maður fær á tilfinninguna, að með byggingu heilsulindarinnar, og annarri starfsemi okkar þarna útá hraunbreiðunni í Illahrauni, hafi okkur tekist að snerta streng í þjóðarsálinni.
Íslendingar virðast hreyknir af starfsemi Bláa Lónsins, þeir heimsækja Bláa lónið - heilsulind með erlenda gesti sína, og eru sjálfir í auknum mæli að læra, að njóta heilsulindarinnar sér til heilsubótar, slökunar og hvíldar.
Útflutningsverðlaun forseta Íslands eru glæsileg viðurkenning, sem við þökkum heilshugar fyrir hér í dag.
Þessi viðurkenning verður okkur hjá Bláa Lóninu hvatning til dáða.
En sú tilfinning, að Íslendingar líti á starfsemi Bláa Lónsins, sem sterkan þátt í vaxandi heilsuímynd Íslands, er okkur, sem störfum hjá fyrirtækinu, ekki síður mikil viðurkenning og  enn frekari hvatning til dáða í framtíðinni.



Grímur Sæmundsen – 21. apríl 2004

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024