Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Bláa lónið fær Bláfánann í tíunda sinn
Mánudagur 15. október 2012 kl. 09:23

Bláa lónið fær Bláfánann í tíunda sinn

Bláfáninn var fyrir skömmu dreginn að húni í Bláa Lóninu í 10. sinn  En Bláa Lónið hefur nú flaggað fánanum árlega frá árinu 2003.  Bláfáninn er alþjóðleg viðurkenning sem veitt er til að stuðla að verndun umhverfis smábátahafna og baðstranda. Í ár er honum flaggað á 3850 stöðum í 46 löndum.

Leikskólabörn frá leikskólanum Króki í Grindavík aðstoðuðu við athöfnina en leikskólinn hefur hlotið umhverfisviðurkenninguna Grænfánann.  Við athöfnina sungu börnin Grænfánalagið og einnig Hafið Bláa Hafið.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar, sagði við þetta tækifæri að það væri bæði hvetjandi og ánægjulegt að Bláa Lónið sem væri einn þekktasti staður Íslands flaggaði Bláfánanum nú í 10 sinn. “Blue Lagoon Iceland er eitt þekktasta vörumerki Íslands. Bláfáninn er útbreiddasta umhverfisviðurkenning sinnar gerðar í heiminum og því víða þekkt vörumerki. Fáninn er til þess fallin að efla jákvæða ímynd og samkeppnishæfni þeirra staða sem flagga honum og kjörin leið til að laða að ferðamenn. En Bláfáninn er fyrst og fremst tákn um góða frammistöðu í umhverfismálum, og staðfesting á umhverfisgæðum þeirra staða þar sem hann blaktir við hún.

Magnea Guðmundsdóttir, kynningarstjóri Bláa Lónsins hf., sagði að starfsmenn fyrirtækisins væru afar stoltir af því að flagga Bláfánanum nú í 10 sinn. „Bláfáninn er hvatning til okkar um að halda áfram á sömu braut og hafa umhverfismál í forgangi. “

Meginmarkmið Bláfánaverkefnisins er bætt umhverfisstjórnun, góð hreinlætisaðstaða, gæði vatns, gott aðgengi að upplýsingum um þjónustu á viðkomandi svæði og slysavarnir. Mikilvægur liður í  Bláfánaverkefninu er að efla almenna umhverfisvitund og er það gert með lifandi fræðslu og upplýsingum um náttúru og viðkvæm svæði á Bláfánastöðum.  
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024