Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Bláa lónið – heilsulind fær Norrænu lýsingarverðlaunin 2006
Föstudagur 16. júní 2006 kl. 15:53

Bláa lónið – heilsulind fær Norrænu lýsingarverðlaunin 2006

Bláa lónið -  heilsulind hlaut Norrænu lýsingarverðlaunin 2006 en verðlaunin voru veitt á Nordlys 2006, norrænni ráðstefnu ljóstæknifélaga sem haldin var í Reykjavík 14.-16. júní sl.
Þetta er í fyrsta skipti sem íslenskt verk hlýtur þessi verðlaun en þau eru veitt annað hvert ár og er markmið þeirra að vekja athygli á vandaðri
norrænni lýsingu.

Lýsingarhönnun heilsulindarinnar var í höndum Guðjóns L. Sigurðssonar, lýsingarhönnuðar hjá Rafteikningu hf. en VA arkitektar ehf. hönnuðu bygginguna sem stendur um hálfan km frá Bláa lóninu, nær orkuverinu.
Í áliti dómnefndar kemur fram að lýsingin í heilsulindinni spili af alúð með arkitektúr byggingarinnar, lóninu og hraunbreiðunni sem umlykur bygginguna. Samspil lýsingar úti og inni sé mjög gott en auk raflýsingar er dagsljósið markvisst notað.

Í lýsingunni er sérstaklega tekið tillit til áberandi sára á húð fólks með psoriasis sem kemur til meðhöndlunar í heilsulindinni og val á lithitastigi ljósgjafa er valið svo psoriasis blettir verði sem minnst áberandi. Í þá lýsingu eru notaðar kaldbakskautsperur sem eru ekki ósvipaðar flúrperum nema hvað velja má hvaða lithitastig sem er og litendurgjöf þeirra er mjög hátt auk þess sem endingartíminn er langur. Þetta er sennilega í fyrsta sinn sem þessi gerð af ljósgjöfum er notaður til almennrar innanhússlýsingar á Norðurlöndunum. Í álitinu stendur jafnframt: „Að mati dómnefndar er lýsing byggingarinnar þaulhugsuð. Norræn birta einkennist annars vegar af björtum sumarnóttum og hins vegar af dimmum vetrarkvöldum. Dómnefndin metur það svo að afbragðsgott tillit sé tekið til þessara aðstæðna í Bláa lóninu. Lýsingin er hönnuð þannig að birtan innan og utan húss rennur mildilega saman en jafnframt hefur tekist vel að móta eðlileg umskipti á milli lýsingar og náttúrulegrar birtu úti fyrir.
Allar lausnir taka jafnt tillit til heilbrigðis og vellíðunar og fagurfræðilegra þátta. Þannig undirstrika hönnuðir heilsulindarinnar að þeir hafa haft stigskipta uppbyggingu í huga sem á ekki hvað sístan þátt í því að færa heilsulindinni glæsilegt yfirbragð sitt.“

Tvær tilnefningar komu frá hverju Norðurlandanna nema Íslandi en þaðan var ein tillaga tilnefnd.

Í dómnefndinni sat einn fulltrúi frá hverju Norðurlandanna, Guðni Gíslason, innanhússarkitekt frá Íslandi, Eirik Bjelland, lýsingar¬ráð¬gjafi, dómnefndarformaður frá Noregi, Staffan Wätte, arkitekt frá Sví¬þjóð, Dorte Gram, arkitekt frá Danmörku og Tapio Kallasjoki frá Finnlandi.

Nánar má sjá um Nordlys 2006 á www.ljosfelag.is
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024