Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Miðvikudagur 14. febrúar 2001 kl. 10:44

Björt framtíð á Suðurnesjum

„Stefna Reykjanesbæjar er að leggja atvinnulífi bæjarins lið þannig að það geti vaxið og dafnað. Sérstakt kapp er lagt á að skapa hagstæð skilyrði með góðum samgöngum og góðri þjónustu bæjarins við fyrirtæki“, segir Helga Sigrún Harðardóttir, atvinnumálafulltrúi Reykjanesbæjar. Markaðs- og atvinnumálaskrifstofan er nú að undirbúa kynningu fyrir fyrirtæki sem
tengjast þjónustu við flug, hafnsækinni starfsemi o.fl. Kynningin fer fram á næstu vikum og er haldin í samvinnu við skipulags- og bygginganefnd og tæknideild Reykjanesbæjar. Þar verður kynnt deiliskipulag svæða sem fyrirhugað er að byggja í nánustu framtíð.

Uppgangur í atvinnulífinu
Nú þegar hafa fjölmörg fyrirtæki komið sér vel fyrir í Reykjanesbæ og mikill uppgangur í atvinnulífinu undanfarin misseri hefur vakið athygli. Helga Sigrún nefnir nokkra þætti sem skýra þann uppgang sem verið hefur, m.a. að hagkvæmt byggingarland er í Reykjanesbæ fyrir alla almenna atvinnustarfsemi og gott aðgengi að nægri raforku, ferskvatni og háhita.
„Nú hafa verið skipulögð sérstök athafnasvæði sem ætluð eru annars vegar flugsækinni þjónustu sem staðsett er í fjögurra mínútna akstursfjarlægð frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar og hins vegar hafnsækinni þjónustu í Helguvík. Borgarhverfi sem staðsett er á besta stað efst í bænum, við Reykjanesbraut og er það ætlað fyrirtækjum í flugþjónustu. Þar má hugsa sér að flugfélög,
bílaleigur, hraðflutningafyrirtæki og aðrir sem hafa hag af því að vera staðsettir nálægt flugvellinum, geti komið sér vel fyrir. Iðnaðarsvæðið í Helguvík hefur nú verið skipulagt og þar munu fyrirtæki sem stunda hafnsækinn iðnað koma sér fyrir í framtíðinni. Helguvíkurhöfn býður
upp á marga möguleika og er þar nú t.d. mjög góð uppskipunaraðstaða fyrir olíu. Hér er því um að ræða svæði sem innflutnings- eða útflutningsfyrirtæki í örum vexti ættu að líta til“, segir Helga Sigrún.

Tvö ný íbúðasvæði
Grænássvæðið er nýtt og vel skipulagt íbúðasvæði en lóðaúthlutanir þar verða auglýstar á næstunni. „Byggðin mun liggja utan í Grænásnum sjálfum sem gerir það að verkum að þar verður gott útsýni fyrir alla, út á sjóinn, yfir Faxaflóann og Njarðvíkina. Fjölbreyttir útivistarmöguleikar eru í nánasta umhverfi en í 10 mínútna göngufjarlægð er verið að hanna útivistarsvæði við tjarnirnar á Fitjum, sem þekktar eru fyrir afar fjölskrúðugt fuglalíf. Lágseyla í Innri Njarðvík hefur einnig verið skipulögð en þar verður boðið upp á lóðir sem liggja næst sjónum. Lágseylan
er kjörinn staður til búsetu fyrir þá sem njóta vilja kyrrðar í nálægð við sjóinn og góð útivistarsvæði“, segir Helga Sigrún.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024