Björgunarsveitir leita fólks á Sveifluhálsi
Sextíu björgunarsveitarmenn með hunda leita nú að fjögurra manna gönguhópi á Sveifluhálsi. Þyrla Landhelgisgæslunnar aðstoðar við leitina en svartaþoka er á svæðinu sem gerir henni erfitt um vik.
Samkvæmt upplýsingum frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu lagði fólkið af stað um klukkan 10:00 í morgun frá Vatnsskarði við Kleifarvatn og hugðust þau ganga Sveifluháls. Svartaþoka er hins vegar á svæðinu og villtist fólkið. Náði það þó að láta vita af sér um kl. 13:00 og voru björgunarsveitir frá höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum þá kallaðar út til leitar.
Ekki næst samband við hópinn eins og er en símasamband er stopult á svæðinu, segir í frétt á mbl.is
Mynd: Frá Sveifluhálsi. Ljósmynd: Ellert Grétarsson, [email protected]