Björgunarsveitir hafa aðstoðað tugi einstaklinga við gosstöðvarnar í kvöld
Veður hefur versnað á svæðinu í kringum gosstöðvarnar í Geldingadal og veðurspá gerir ráð fyrir versnandi veðri í nótt með hvassviðri, slyddu eða snjókomu.
Björgunarsveitafólk hefur vaktað gosstöðvarnar og gönguleiðirnar að þeim í allan dag og komið fólki til aðstoðar. Í kvöld hefur verkefnum björgunarsveita fjölgað töluvert og hefur tugum einstaklinga verið komið til aðstoðar frá því seinni partinn í dag. Meirihluti þeirra sem þurfa aðstoð eru örmagna eftir langa göngu, eitthvað hefur verið um smávægileg slys og nokkrir hafa villst af leið. Búast má við að verkefnum björgunarsveita fjölgi enn frekar í nótt þar sem enn eru nokkur hundruð manns á svæðinu. Fleiri björgunarsveitir hafa verið kallaðar út til aðstoðar í nótt.
„Við hetjum fólk til að fara ekki að gosstöðvunum í nótt og fylgjast vel með upplýsingum um veðurspá og tilkynningum frá lögreglu á morgun,“ segir Davíð Már Bjarnason hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu.