Björgunarsveitir búa sig undir ofsaveðrið
Björgunarsveitir á Suðurnesjum eru í viðbragðsstöðu vegna ofsaveðurspár. Björgunarsveitarmenn hafa verið beðnir um að vera í viðbragðsstöðu og hjá Björgunarsveitinni Suðurnes er staðin vakt í nótt.
Kári Viðar Rúnarsson, formaður Björgunarsveitarinnar Suðurnes, sagði í samtali við Víkurfréttir nú áðan að hans fólk væri búið undir slæmt veður. Spáð er miklu hvassviðri og stormi í nótt og að vindhraði geti náð allt að 30 metrum á sekúndu á suður- og vesturlandi.
Á vef Veðurstofu Íslands segir að ekkert ferðaveður verði á landinu í kvöld, í nótt og fram eftir morgundeginum.