Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Fimmtudagur 29. janúar 2004 kl. 10:55

Björgunarsveitin Þorbjörn: 232 sjómönnum bjargað

Björgunarsveitin Þorbjörn í Grindavík hefur tekið saman lista yfir bjarganir sjómanna úr sjávarháska frá því að Slysavarnadeildin Þorbjörn og síðar Björgunarsveitin Þorbjörn voru stofnaðar.  Grindvískum björgunarmönnum hefur auðnast að bjarga 232 sjómönnum í 22 sjóslysum, en í fimm af þessum slysum fórust 47 sjómenn. 

Frá stofnun Slysavarnadeildarinnar Þorbjörns árið 1930 og síðar stofnun Björgunarsveitarinnar Þorbjörns árið 1947 hefur grindvískum björgunarmönnum auðnast sú mikla gæfa að bjarga 232 sjómönnum úr sjávarháska, þar af hefur 205 verið bjargað með fluglínutækjum.  Er það mesti fjöldi íslensk björgunarsveit hefur bjargað.

Fyrsta björgunin átti sér stað 24. mars 1931 þegar franski síðutogarinn Cap Fagnet strandaði við bæinn Hraun, austan Grindavíkur.  Allri áhöfninni 38 mönnum var þá bjargað með fluglínutækjum, en það var í fyrsta skipti sem þau voru notuð við björgun mannslífa á Íslandi.  Flýtti þessi björgun mjög fyrir útbreiðslu þeirra um landið og eiga nú á þriðja þúsund íslenskir og erlendir sjómenn þeim líf sitt að launa eftir að hafa lent í skipsstrandi við Ísland.

Með tilkomu fleiri og öflugri björgunartækja s.s. slöngubáta, björgunarskipa, betri búnaði björgunarmanna og svo aukinni tækni við boðun björgunarsveita í útköll hefur tekist að bregðast mun fyrr við þegar óhöpp og slys verða og bjarga sjómönnum við erfiðari aðstæður en áður þekktist. 

Björgunarsveitin var ein af fjórum sveitum sem fyrstar hófu notkun á s.k. harðbotna slöngubátum árið 1985 og er ljóst að með tilkomu þeirra svo og öflugri björgunarskipa sem síðar komu til landsins, líkt og björgunarskipsins Odds V. Gíslasonar, hefur tekist að koma í veg fyrir alvarleg slys.  Má þar nefna að bjarga skipum áður en þau reka á land, koma sjódælum um borð í lek skip, flytja slökkviliðsmenn í brennandi skip, bjarga mönnum úr sökkvandi skipum o.s.frv.  Þá eru ónefndar þær margvíslegu aðstoðarbeiðnir sem berast frá sjómönnum þar sem líf eru ekki í hættu.

Björgunarsveitin Þorbjörn hefur lagt mjög mikið upp úr að geta brugðist sem hraðast við útköllum, sérstaklega þegar sjóslys verða.  Þessi metnaður skilaði m.a. björgun skipverjanna tveggja af Sigurvin GK s.l. föstudag og björgun flutningaskipsins Trinket í febrúar í fyrra.  Aðstæður hér við Grindavík eru með þeim erfiðari hér við land þar sem úthafsaldan brýtur á klettóttri ströndinni og því nauðsynlegt að bregðast skjótt við ef óhöpp eða slys verða.  Skiptir því miklu máli að þeir sem fá vitneskju um slíkt, hvort sem það eru sjónarvottar, starfsfólk Tilkynningaskyldu, loftskeytastöðva, Neyðarlínu o.fl. hafi hraðar hendur við að kalla út björgunarsveitina og aðra viðbragðsaðila.

Eins og sjá má á meðfylgjandi lista voru fluglínutækin sá björgunarbúnaður sem notaður var til björgunar úr strönduðum skipum lengstan hluta síðustu aldar.  Fluglínutæki hafa ekki verið notuð við björgun í Grindavík síðan 1989 en þau eru síður en svo úrelt björgunartæki og er notkun þeirra æfð reglulega og þau eru ætíð hluti af björgunarbúnaði sveitarinnar þegar skipi hlekkist á í nágrenni Grindavíkur.  Þess má geta að fluglínutæki voru síðast notuð við björgun hér á landi við Patreksfjörð í nóvember 2001.
Eins og fyrr segir hefur björgunarsveitin bjargað 232 sjómönnum úr sjávarháska í 22 sjóslysum og óhöppum.  Á sama tíma hafa 47 sjómenn farist í fimm af þessum slysum. 

Þess ber að geta að fleiri sjóslys hafa orðið við Grindavík þar sem sjómönnum hefur verið bjargað af öðrum, bjargast af sjálfsdáðum eða farist.

Skoða töflu!

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024