Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Föstudagur 29. desember 2000 kl. 11:40

Björgunarsveitin Suðurnes tekur í notkun fullkominn fyrstuhjálpargám

Björgunarsveitin Suðurnes og Brunavarnir Suðurnesja hafa komið á fót fyrstuhjálparhóp og í honum eru 30 manns. Björgunarsveitin hefur fest kaup á fullkomnum fyrstuhjálpargámi sem verður fullbúinn tækjum og öðrum nauðsynlegum búnaði í febrúar á næsta ári. Gámurinn kostar 3,5 millj. kr. en kaupin eru að mestu fjármögnuð með flugeldasölu. Suðurnesjamenn eru því hvattir til að versla flugelda af Björgunarsveitinni Suðurnes og styrkja gott málefni.

Bregðast við stórslysum
Hlutverk fyrstuhjálparhópsins er að bregðast við hópslysum sem hin almenna neyðarþjónusta ræður ekki við, s.s. rútuslys, flugslys, náttúruhamfarir, stórbrunar o.fl. Fyrstuhjálparhópurinn þjónar öllu landinu og jafnvel getur hann farið erlendis sé þess óskað. Í fyrstuhjálparhópnum eru reyndustu einstaklingarnir bæði úr björgunarsveitinni og frá Brunavörnum Suðurnesja.

Fllkomin tjöld
Fyrstuhjálparbúnaður Björgunarsveitarinnar Suðurnes er með öllum búnaði fyrir 24 manna fyrstuhjálparhóp til að takast á við ýmis konar stórslys. Búnaðurinn verður í færanlegum gámi sem hægt verður að hífa m.a. af þyrlu eða um borð í bát. Í þessum gámi verður m.a. tvö fyrstuhjálpartjöld sem í er sérhæfður fyrstuhjálparbúnaður, s.s. vinnustöðvar fyrir greiningasveit, þyrlulendingarbúnaður, vökvar og súrefni, rafstöðvar, sigbúnaður o.fl.
Hvort tjald fyrir sig er um 37 fermetrar en þau eru þannig hönnuð að hægt er að taka á móti sjúklingum innan fimmtán mínútna frá komu á slysstað. Í þeim verða 3-4 vinnustöðvar fyrir fyrstuhjálparmenn eða greiningarsveit lækna til að athafna sig við greiningu, hjúkrun og forgangsröðun. Þessi tjöld eru sömu gerðar og margar erlendar björgunarsveitir eru með og því hægt að tengjast þeim á auðveldan hátt. Upphitunarbúnaður fylgir tjöldunum.

Styrkjum gott málefni
Ragnar Sigurðsson, formaður Björgunarsveitarinnar Suðurnes, segir að hópurinn hafi upphaflega verið stofnaður vegna nálægðar við flugvöllinn og mikillar umferðar hópflutningabifreiða um Reykjanesbrautina.
„Við létum sérsmíða gáminn og erum nú að kaup í hann nauðsynlegan búnað en hann ætti að vera fullkláraður um miðjan febrúar 2001.“
Gámurinn kostar fullbúinn 3,5 milljónir króna og að sögn Ragnars er hann fjármagnaður með styrktarfé frá fyrirtækjum og félagasamtökum og flugeldasölu. „Við erum byrjuð að selja flugelda og erum með sölustaði í björgunarsveitarhúsinu Holtsgötu 51 í Njarðvík, söluskúr við Tjarnagötutorg í Keflavík og söluskúr við Hitaveitu Suðurnesja Brekkustíg í Njarðvík. Ég hvet Suðurnesjamenn til að kaupa af okkur flugelda og fagna aldamótunum og styrkja um leið gott málefni.“
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024