BJÖRGUNARSVEITIN SUÐURNES: ENDURBÆTT HÚSNÆÐI TEKIÐ Í NOTKUN
Björgunarsveitin Suðurnes tók formlega í notkun nýtt og endurbætt húsnæði sl. föstudag. Við það tækifæri var forráðamönnum fyrirtækja og félagasamtaka í bænum boðið til samsætis í húsnæðinu að Holtsgötu 51 í Njarðvík. Þar var starfsemi sveitarinnar kynnt og björgunarbúnaður og tæki til sýnis. Um 250 manns mættu í hófið.Björgunarsveitin Suðurnes fagnar 5 ára afmæli á þessu ári en sveitin var stofnuð með sameiningu Hjálparsveitar skáta í Njarðvík og Björgunarsveitarinnar Stakks í Keflavík. Við vígslu viðbyggingarinar, sem er um 200 fermetrar var einnig tekin í notkun ný og endurbætt stjórnstöð. Hún er mjög vel tækjum og kortum búin.Margar gjafir bárust til sveitarinnar við þessi tímamót. Sparisjóðurinn í Keflavík og Kvenfélag Keflavíkur færðu sveitinni rausnarlegar gjafir og það sama gerði Lionessuklúbbur Keflavíkur fyrir nokkrum dögum. Einnig barst sveitinni mikið af blómum og kveðjum.Landsþing Landsbjargar, hið fimmta í röðinni, var haldið í Stapanum um helgina. Þar var aðal málið á dagskrá sameining við Slysavarnafélag Íslands. Sameiningin var samþykkt samhljóða.Ragnar Sigurðsson, formaður Björgunarsveitarinnar Suðurnes, sagði í samtali við blaðið að framundan væru tvær ferðir á vegum sveitarinnar í sumar. Þá annast Björgunarsveitin Suðurnes sjómannadagsdagsskránna í Reykjanesbæ en sjómannadagurinn verður haldinn hátíðlegur við smábátahöfnina í Gróf. Sjá nánar í dagskrá í auglýsingu á bls. 21 í Víkurfréttum í dag.