Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Björgunarsveitin Suðurnes á hálendinu
Föstudagur 29. júní 2007 kl. 15:07

Björgunarsveitin Suðurnes á hálendinu

Í dag halda fjórar björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar upp á hálendið en í sumar verður Slysavarnafélagið Landsbjörg með slysavarnaverkefni á svæðinu en þetta er annað árið sem það er gert. Ein þessara sveita er Björgunarsveitin Suðurnes.

Verkefnið felst í því að félagið staðsetur fjórar björgunarsveitir í fimm hópum uppi á hálendinu frá 29. júní til 12. ágúst. Hálendinu verður skipt gróft upp í fjögur svæði; Kjalvegur og nágrenni, Sprengisandsleið, Fjallabaksleiðir og svæðið norðan Vatnajökuls, og verður ein björgunarsveit staðsett á hverju þeirra nema að Fjallabaki þar sem tveir hópar verða á ferðinni.

Markmið verkefnisins er þríþætt:
-fækka slysum
-veita ferðamönnum aðstoð og upplýsingar -vera með viðbragðseiningar á hálendinu

Á hverju ári verða alltof mörg slys á hálendi Íslands sem aðallega má rekja til vanþekkingar og vanbúnaðar þeirra sem um það fara.

Undanfarin ár hefur margsinnis verið leitað að ferðamönnum og árlega hafa ferðamenn látist á hálendinu. Með því að staðsetja björgunarsveitir á hálendinu verður hægt að bregðast fljótt við ef aðstoðar er þörf.

Síðastliðið sumar var mikið um hvers kyns aðstoð við ökumenn, þeim voru veittar leiðbeiningar, fyrsta hjálp og mörgum var bent á að þeir væru á bílum sem væru ekki búnir fyrir hálendisferðir. Einnig var nokkuð um að ferðamenn lentu í vandræðum við óbrúaðar ár. Allmörg stærri verkefni, eins og umferðarslys og banaslys þegar hrundi úr íshelli komu til kasta björgunarsveita á hálendinu 2006.

Neyðarlínan mun verða upplýst um stöðu og staðsetningu björgunarsveitanna sem taka þátt í verkefninu. Það mun að hluta til verða gert með ferilvöktun í gegnum TETRA fjarskiptakerfið auk þess sem Landmælingar Íslands hafa nú veitt björgunarsveitum aðgang að kortagrunni sínum og því eru þær nú með bestu fáanlegu upplýsingar þegar skipuleggja þarf aðgerðir og aðra vinnu á hálendinu. Í undirbúningi er frekara samstarf LMÍ og Slysavarnafélagsins Landsbjargar.

Björgunarsveitir víðs vegar af landinu munu taka þátt í verkefninu með því að leggja til mannskap og búnað í eina viku. Rétt er að taka fram að allt björgunarsveitarfólk er sjálfboðaliðar.

Þeir sem þurfa að ná á björgunarsveitirnar geta gert það í gegnum Neyðarlínuna 112.

Umferðarstofa, Sjóvá, N1, Toyota, Avis og Höldur styrkja verkefnið.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024