Björgunarskip fékk í skrúfuna
Nú er verið að draga bát sem varð vélarvana undan Vogum á Vatnsleysuströnd til Hafnarfjarðar. Togarinn Sóley Sigurjóns GK er með bátinn í togi.
Björgunarskipið Hannes Þ. Hafstein fékk dráttartóg í skrúfuna utan við Njarðvík þegar hann átti að taka við vélarvana bátnum.
Aðstæður voru erfiðar, þungur sjór, sterkur straumur og mikill vindur þannig að skipstjórinn á Sóley Sigurjóns GK treysti sér ekki til hafnar í Njarðvík og Keflavík og ákvað að taka stefnuna á Hafnarfjörð.
Einn maður var um borð í vélarvana bátnum en björgunarsveitarmaður var kominn um borð í bátinn til hans. Ekki var talið þorandi að flytja skipverjann á milli báta en hann var sagður örmagna af þreytu eftir björgunaraðgerðir næturinnar.
Aðstæður til björgunarstarfa voru mjög erfiðar og lentu slöngubátar björgunarsveita í vandræðum í mikilli ölduhæð.