Björgunarmenn á Hjalta Frey og Oddi V. settu sig í mikla hættu
Björgunarsveitin Þorbjörn í Grindavík hefur gefið frá sér tilkynningu vegna björgunaraðgerða í morgun þegar bátur fórst í innsiglingunni til Grindavíkur. Þar segir: Í morgun kl. 11:17 barst útkall rauður frá Neyðarlínunni vegna báts sem hvolft hafði í innsiglingunni til Grindavíkur. Um var að ræða netabátinn Sigurvin GK sem var á leið til hafnar eftir róður. Björgunarsveitin sendi strax af stað björgunarskipið Odd V. Gíslason og slöngubátinn Hjalta Frey og að auki mannskap landleiðina út í Hópsnes ef skipbrotsmenn ræki á land.
Þegar bs. Oddur V. var kominn út í innsiglinguna stuttu síðar var mikið brim og braut öðru hvoru þvert yfir innsiglingarennuna. Fljótlega sást til manns í briminu sem hékk þá utan á gúmmíbjörgunarbát Sigurvins. Gúmmíbjörgunarbáturinn var þá á reki í briminu skammt utan við eystri brimvarnargarðinn. Slöngubáturinn Hjalti Freyr kom að um sama leyti og var ákveðið að hann reyndi að ná manninum. Ekkert sást þá í hinn skipverjann. Björgunarsveitarmenn á sl.b. Hjalta Frey tókst að sæta lagi milli ólaga og komast meðfram brimvarnargarðinum að gúmmíbjörgunarbátnum. Náðu þeir taki á skipbrotsmanninum en sökum þess að hann var í kuldasamfestingi, sem þyngdist mikið í sjónum, náðu þeir ekki að innbyrða hann strax og héldu þeir honum á síðunni meðan þeir komust út úr briminu. Náðu þeir þá að draga hann um borð og héldu þegar með hann til hafnar þar sem sjúkraflutningamenn tóku á móti honum.
Meðan Hjalti Freyr fór inn til hafnar hélt áhöfnin á bs. Oddi V. áfram leit að hinum skipverjanum og sáu þeir hvar hann var á reki í briminu skammt frá þeim stað sem hinn fannst. Oddur V. reyndi að komast að manninum en fékk á sig þrjú brot. Sökum þess hve stutt var upp í brimvarnargarðinn var kallað í sl.b. Hjalta Frey sem var á leið út aftur. Þegar Hjalti Freyr kom út sá áhöfnin á honum strax til mannsins í sjónum. Gat Hjalti Freyr sætt lagi og komst milli ólaga og náð manninum. Farið var með hann strax til hafnar og voru báðir mennirnir fluttir á Landsspítalann í Reykjavík.
Mennirnir voru báðir með meðvitund þegar þeim var bjargað en mjög kaldir og þrekaðir. Báðir höfðu mennirnir komist í björgunarvesti og hefur það líklega orðið þeim til lífs.
Björgunarmenn á Hjalta Frey og Oddi V. settu sig í mikla hættu til bjargar mönnunum og mátti ekkert út af bera svo ekki færi illa.
Þar sem fyrstu upplýsingar sögðu að þriggja manna áhöfn hefði verið á bátnum héldu björgunarbátarnir áfram leit þar til staðfesting hafði komið að einungis hefðu verið tveir um borð.
Flakið af Sigurvin rak upp að eystri brimvarnargarðinum og barðist þar í briminu. Að beiðni hafnarstjórans í Grindavík og fulltrúa tryggingafélags Sigurvins GK komu félagar sveitarinnar tógi í Sigurvin og með MAN trukk sveitarinnar tókst að draga flakið inn í kverk þar sem brimvarnargarðurinn og sjávarkamburinn mætast. Vann sveitin við þetta frá kl 14:15 til kl 18:30. Stefnt er að því að ná bátum á land á morgun.
VF-myndir: Jóhannes Kr. Kristjánsson