Björgunarbátur skemmdur í Sandgerði
Milljónatjón segir eigandi
Svo virðist sem óprúttnir aðilar hafi gert sér það að leik að skemma gamla björgunarbátinn Kidda Lár í Sandgerði um helgina. Báturinn ber nú nafnið Siggi Sæm og er í eigu Sigurðar Stefánssonar kafara. Hann segir að svo virðist sem stungin hafi verið göt á bátinn á einum 6-7 stöðum og líklega hafi svokallaður goggur verið notaður við skemmdarverkin. „Þetta er alveg ömurlegt og líklega tjón sem hleypur á milljónum þar sem báturinn er eflaust ónýtur,“ sagði Sigurður í samtali við Víkurfréttir. Sigurður segir að komið sé í ljós að einnig hafi verið brotist inn í tvær trillur við Sandgerðishöfn um helgina.
Báturinn sem er harðbotna slöngubátur var áður í eigu björgunarsveitarinnar Sigurvonar í Sandgerði, en sveitin notast einmitt við bátinn þessa dagana, þar sem nýi báturinn, Þorsteinn, er bilaður. Líklega hafa skemmdarvargarnir náðst á myndavélar sem vakta hafnarsvæðið en verið er að skoða þau mál að sögn Sigurðar. Hann biðlar til þeirra sem hafa einhverjar upplýsingar um málið að hafa samband við lögregluna. Hann segir nokkrar ábendingar hafa borist og nú sé lögreglan að vinna í málinu.