Björgunaraðgerðir við erfiðar aðstæður við Grindavíkurveg
Björgunarmenn frá Slökkviliði Grindavíkur og Brunavörnum Suðurnesja unnu við björgun úr bíl við mjög erfiðar aðstæður nú áðan. Jeppabifreið hafði oltið og hafnað í hraungjótu við Grindavíkurveg. Aðstæður voru erfiðar og aðkoman ljót.
Fjórir voru í bílnum og tókst þremur að komast út úr flakinu en fjórði aðilinn var fastur í bílnum og þurfti að beita klippum og örðum björgunarbúnaði til að ná viðkomandi úr bílflakinu, sem var illa farið.
Eins og sjá má á myndum Hilmars Braga Bárðarsonar frá vettvangi voru aðstæður erfiðar til björgunar og veðrið á slysstað kalt og blautt.
Mikil hálka og slabb voru á veginum þar sem slysið varð. Bíllinn er mikið skemmdur. Ekki er hægt að segja til um hversu alvarleg slys urðu á fólki. Sá sem festist í bílnum var með meðvitund.
Frá vettvangi slyssins á Grindavíkurvegi nú áðan. Myndir: Hilmar Bragi