Björguðu manni úr Keflavíkurhöfn
Lögreglu- og slökkviliðsmenn björguðu í kvöld manni úr höfninni í Keflavík. Tilkynnt var um mann sem hafði fallið í höfnina kl. 20:02 í kvöld.
Lögreglumenn sem komu fyrstir á vettvang klæddust flotbúningum og fóru í sjóinn. Þar náðu þeir til mannsins og komu honum að stiga í höfninni.
Slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Suðurnesja komu svo á staðinn með körfubíl og var manninum komið í börur og hífður í þeim úr sjónum.
Maðurinn var orðinn kaldur en með fullri meðvitund. Hann var fluttur á sjúkrahús til skoðunar og eftirlits.
Myndin er frá vettvangi við Keflavíkurhöfn. Þar má sjá lögreglumennina í sjónum með manninn við stigann skömmu áður en hann var hífður upp á bryggju með körfubílnum.
VF-mynd: Hilmar Bragi