Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fimmtudagur 11. janúar 2001 kl. 14:06

Björguðu fjórum norskum sjómönnum

Áhöfnin á Njarðvík GK bjargaði í gærkvöld fjórum norskum sjómönnum eftir að eldur kom upp í bátnum Solgry um átta til níu mílur fyrir utan Gjesvær í Norður-Noregi um kl. 21.30.
Skipverjum á Njarðvíkinni tókst að bjarga mönnunum úr sjónum, en þeir voru komnir í björgunarbát. Solgry sökk kl. 3 í nótt. Var siglt með mennina til móts við björgunarskipið Reidar von Koss. Mönnunum varð ekki meint af volkinu en þeir fengu snert af reykeitrun. Sagt var frá björgunarafrekinu í norskum fjölmiðlum í morgun
Jónas Kristjánsson, skipstjóri á Njarðvík GK, var að vonum ánægður með björgunarafrekið en hann og útgerð Njarðvíkur GK gengust nýlega undir dómssátt vegna meints brots á norsku fiskveiðistjórnarreglunum. Það var mat hans og útgerðarmannsins, Magnúsar Daníelssonar, að ekki myndi svara kostnaði að reyna að sækja réttlæti til norskra dómstóla í málinu.

Sá logandi bát
Í samtali við Morgunblaðið segir Jón Vigfússon stýrimaður á Njarðvík GK að ekki hafi mátt miklu muna að tækist að bjarga mönnunum sem voru orðnir kaldir og hraktir.
„Skipstjórinn náði ekki að kalla upp staðsetningu þannig að þetta leit ekki vel út. Ég fór að svipast um eftir honum og sá mjög fljótlega logandi bát sem var í nokkurri fjarlægð frá okkur. Síðan fuðraði brú bátsins upp á örskömmum tíma. Viðsettum allt í gang og vorum komnir að skipinu eftir örfár mínútur. Þetta gekk allt vel fyrir sig því það var gott veður. Mennirnir voru hins vegar kaldir og hraktir. Það komust ekki allir í björgunargalla og björgunarbáturinn þeirra var illa farinn. Það má því segja að það hafi verið einskær lukka að við vorum þarna á svæðinu.“

Náði ekki að klára neyðarkallið
Jón sagði björgunarbáturinn hefði eitthvað skemmst þegar mennirnir stukku í hann. Þeir hefðu ekki getað komið sér almennilega fyrir í honum. „Þegar við komum að var einn maður í sjónum og tveir höfðu ekki komist í galla og voru gegnblautir.“ Jón sagðist ekki vita um eldsupptök, en eldurinn hefði læst sig í bát inn á mjög skammri stundu. „Ég var nýbúinn að keyra framhjá bátnum og þá var allt í lagi. Nokkrum mínútum síðar kom neyðarkallið og litlu seinna fuðraði brúin upp. Skipstjórinn náði ekki að klára neyðarkallið.“

Þakklátir fyrir björgunina
Jón sagðist telja ólíklegt að mennirnir hefðu allir komist af ef að þeir hefðu þurft að vera í björgunarbátnum í langan tíma við þessar aðstæður. Það hefði verið komið niðamyrkur þegar þetta gerðist. Mennirnir hefðu ekki náð að gefa út neina staðsetningu og eftir að báturinn var sokkinn hefði verið erfitt að finna þá. Jón sagði að mennirnir hefðu verið í sjokki, en afar þakklátir fyrir björgunina. Björgunarbátur hefði komið frá Havöysund sem hefði flutt mennina í land.
„Það er ekki óþægileg tilfinning að eiga þátt í að bjarga mönnum úr lífsháska með þessum hætti. Maður fær hálfgerðan hroll þegar maður hugsar um hvað hefði gerst ef við ekki verið þetta nálægt. Þá hefðum við líklega ekki fundið þá. Það skiptir líka máli að áhöfn Njarðvíkur stóð sig öll einstaklega vel. Þetta var því fín björgunaræfing“, sagði Jón.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024