Bjartsýnn á að Hitaveitan verði hlutafélag fljótlega
Starfshópur sem skipaður var til að kanna kosti og galla breytingu rekstrarforms Hitaveitu Suðurnesja var ekki einhuga um að breyta fyrirtækinu í hlutafélag. Hópurinn var skipaður tíu fulltrúum sveitarstjórnarmanna á Suðurnesjum undir formennsku Þorsteins Erlingssonar, bæjarfulltrúa í Reykjanesbæ.
„Þó svo það hafi ekki verið eining í starfshópnum um þetta stóra mál er ég bjartsýnn á að Hitaveitan verði að hlutafélagi fljótlega. Þetta er eitt af stærri málum Suðurnesja um þessar mundir og mikilvægt að við nýtum krafta, styrk og þekkingu starfsmanna Hitaveitunnar í þeim miklu breytingum sem framundan eru í orkumálum.“
Fjórir nefndarmenn, Þorsteinn Erlingsson (Reykjanesbæ), Einar Njálsson (Grindavík), Ólafur Guðbjartsson (Grindavík) og Ólafur Kjartansson (Gerðahreppi) töldu rétt að ráðast nú þegar í breytingu rekstrarformsins í hlutafélag. Rök þessara fjögurra voru m.a. þau að nauðsynlegt væri að hlutafélagsvæðast m.a. vegna viðræðna við eigendur Rafveitu Hafnarfjarðar og vegna þeirrar samkeppni sem nú þegar er hafin um dreifiveitur og auðlindir tengdar þeim. Þeir telja að nú þegar liggi það mikið fyrir um fyrirhugaða framtíðarskipan orkumála, a.m.k. þau atriði er snerta val rekstrarforms, að ekki sé ástæða til að bíða þess vegna þegar aðrir brýnir hagsmunir kalli á breytingar. Það er jafnframt skoðun þeirra að eiginfjárstaða HS sé það sterk, að möguleiki sé á útgreiðslu á eigin fé fyrirtækisins til eigenda, þegar til breytingar kæmi á rekstarformi HS í hlutafélag, auk þess sem breytt rekstaraform skapar ýmis sóknarfæri sem nýta má til aukinnar araðsemi.
Aðrir fjórir, þau Jón Gunnarsson (Vogum), Kristmundur Ásmundsson (Reykjanesbæ), Jóhanna Reynisdóttir (Vogum) og Jón Norðfjörð (Sandgerði) töldu ekki tímabært að breyta Hitaveitunni í hlutafélag á þessu stundu í ljósi þeirra óvissu sem ríkir um framtíðarskipan orkumála og hugsanlega auknar kröfur um skattlagningu greinarinnar ef breytt verður almennt í hlutafélagaformið. Þau leggja til að beðið verði eftir setningu Alþingis á nýjum lögum og metið í framhaldi af því hvort breytingar á lögum kalli á breytt félagsform Hitaveitunnar. Bent er á að ríkisvaldið vill bíða með ákvarðanatöku varðandi eignarhlut sinn í HS þar til línur skýrast um framtíðarskipan orkumála og því væri skynsamlegt hjá öðrum eignaraðilum fyrirtækisins að gera slíkt hið sama. „Meðan fyrirkomulag orkumála er með óbreyttum hætti og í ljósi þeirrar samstöðu sem hefur ríkt um rekstur fyrirtækisins er ekki séð að nein brýn nauðsyn sé á að breyta rekstarforminu“, segir orðrétt í bókun þeirra.
Tveir fulltrúar, þeir Finnbogi Björnsson (Gerðahreppi) og Sigurður Valur Ásbjarnarson (Sandgerði) sátu hjá og tóku ekki afstöðu til hf-væðingar, þar sem fyrir liggur, að ávörðun um málið verður tekin í einstökum sveitarstjórnum við afgreiðslu á samrunaáætlun Hitaveitu Suðurnesja og Rafveitu Hafnarfjarðar.
Þó starfshópurinn sé ekki einhuga um hf-væðinguna þá er hann sammála um að þegar rekstrarforminu verður breytt muni það verða í hlutafélag.
Starfshópurinn fékk á sinn fund ýmsa ráðgjafa og lögðu þeir fram hugleiðingar og minnisblöð um málið. Skoðanir manna eru misjafnar en sumum þótti skorta á stefnumótun stjórnvalda við skoðun svo umfangsmikils máls. Öðrum þótti rétt að þar sem ljóst þykir að frumvarp verður lagt fram á alþingi um breytingar á orkulögum nú í vetur væri ástæðulaust að bíða auk þess sem hf-væðing væri skilyrði fyrir sameingingu við Rafveitu Hafnarfjarðar.
Sveitarfélögin á Suðurnesjum hafa fengið sent til sín bréf þar sem óskað er eftir afgreiðslu þeirra á samrunaáætlun fyrir Hitaveitu Suðurnesja og Rafveitu Hafnarfjarðar sem og á drögum að stofnsamningi fyrir hlutafélagsvæðingu Hitaveitunnar. Grindavíkurbær hefur afgreitt málið og samþykkt samhljóða. Sveitarstjórn Vatnsleysustrandarhrepps frestaði afgreiðslu málsins. Reykjanesbær tekur málið fyrir í bæjarráði í dag og mun samkvæmt heimildum blaðsins verða samþykkt í meirihluta bæjarstjórnar. Gerðarhreppur og Sandgerðisbær munu taka málið fyrir í sínu heimahéraði á næstu dögum.