Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Bjartsýni um aukningu ferðamanna á Reykjanesi
Miðvikudagur 7. apríl 2004 kl. 16:25

Bjartsýni um aukningu ferðamanna á Reykjanesi

„Það er mikill hugur í fólki hér á Reykjanesi fyrir sumrinu og margar hugmyndir í gangi. Þar sem búist er við 30-40% aukningu ferðamanna til landsins í sumar vonumst við til að fá hluta af þeim til að staldra við á Reykjanesi og nýta sér þá þjónustu sem er í boði  í sveitarfélögunum“, segir Rannveig L.Garðarsdóttir hjá upplýsingamiðstöð Reykjanes í samtali við Víkurfréttir.
Áhersla verður lögð á að kynna fallega náttúru Reykjaness og þær ótal mörgu gönguleiðir sem hér liggja um Reykjanesskagann, til stendur að láta gera nýstárleg göngukort með öllum gönguleiðum á svæðinu og verða þau kynnt með vorinu, lögð verður áhersla á bæklingagerð, boðið verður uppá skoðunarferðir um sveitarfélögin fimm,
Hugmynd er um að gert verði eitt viðburðardagatal fyrir allt svæðið. 
Útbúnir verða skoðunarferðapakkar sem auðvelda ferðamanninum að ferðast um Reykjanes á eigin vegum og nýta sér þá afþreyingamöguleika sem þar er í boði, verða þessir pakkar ferðamönnum að kostnaðarlausu og fást á Upplýsingamiðstöð Reykjaness Hafnargötu 57 Reykjanesbæ.
„Það er erfitt að spá um hvað við eigum von á mörgum ferðamönnum í sumar en við erum bjartsýn á að það verði aukning hjá okkur því að sumarið í fyrra fór í að kynna og merkja aðgengi að Upplýsingamiðstöðinni, ég er að vona að Upplýsingamiðstöðin sé farin að virka vel og sé aðgengileg erlendum og innlendum ferðamönnum. Ég er bjartsýn á að íbúar Reykjaness nýti sér Upplýsingamiðstöðina í auknu mæli því hér er hægt að fá bæklinga og upplýsingar um allt sem viðkemur ferðalögum bæði innanlands og utan“, segir Rannveig ennfremur.

Hvað eru ferðamenn að spyrja um eða leita eftir?
„Flestir ferðamennirnir sem hingað koma eru svokallaðir”stopover” ferðamenn en það eru þeir sem millilenda hér og stoppa í 1-3 daga,  þessir ferðamenn skipuleggja ferðir sínar sjálfir og þá einkum á internetinu því tel ég það mikilvægt að ferðþjónustuaðilar séu vel kynntir á þeim vettvangi, það sem ferðamaðurinn leitar aðallega eftir er afþreying, gisting og samgöngumöguleikar á svæðinu“.

 

Ljósmyndir: Oddgeir Karlsson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024