Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Biskup á Hvalsnesi: Andtrúin sækir inn í hin helgu vé
Miðvikudagur 12. desember 2007 kl. 16:20

Biskup á Hvalsnesi: Andtrúin sækir inn í hin helgu vé

Herra Karl Sigurbjörnsson biskup predikaði í Hvalsneskirkju um liðna helgi á 120 ára vígsluafmæli Hvalsneskirkju. Biskupinn fór víða í predikun sinni en predikunin var undir yfirskriftinni  „Heilbrigð eða óheilbrigð trú“.  Hér að neðan er hluti predikunarinnar en hana má nálgast í heild sinni inni á vefnum kirkjan.is

Það er hart tekist á um lífsskoðanir í samtíðinni, og Þjóðkirkjan stendur undir dómi. Grunnstef okkar samtíðar birta að skammt er öfganna á milli, annars vegar er óheft tæknitrú, tómhyggja og mannhyggja, sem skilgreina alla trú sem hindurvitni, hins vegar hatrömm bókstafshyggja, múslimsk – en líka kristin. Það er alveg áreiðanlegt að ef látið verður undan kröfu þeirra sem vilja dauðhreinsa hið opinbera rými af kristnum trúartáknum, viðmiðum og tjáningu, þá væri einmitt verið að opna fyrir öfgum og hleypidómum af öllu tagi. Og það sjáum við svo greinilega þessa dagana.

Í Reykjavík auglýsir Tónlistaþróunarmiðstöðin tónlistarhátíð rétt fyrir jól undir heitinu „Andkristni 2007.“ Hátíðin er beinlínis til höfuðs kristinni trú. Tekið er fram í auglýsingunni á vefnum að samtökin Vantrú verði með bás og eyðublöð til að skrá sig úr þjóðkirkjunni. Hátíðinni er ætlað að rífa niður, niðra og níða það sem kristnum mönnum er heilagt og hefja dauðann og djöfulinn á stall. Mér varð illt af því að lesa vefsíðuna með auglýsingunni og meðfylgjandi athugasemdum haturspostulanna.

Það er augljóst að minni hyggju að valið snýst ekki um trú eða trúleysi heldur um heilbrigða og óheilbrigða trú. Manneskjan er haldin ólæknandi trúhneigð. Hún brýst bara fram með ýmsum hætti og formerkjum. Það er hlutverk samfélagsins að miðla og rækta heilbrigða trú og stuðla að með tiltækum ráðum. Heilbrigð trú er trú sem vex og þroskast í samfylgdinni við góðan Guð, heilbrigð trú telur sig ekki sitja inni með öll svörin, hún er glíma við Guð, horfist í augu við syndina og dauðann, hið illa og ljóta í tilverunni, og tekst á við lífið og veruleikann af ábyrgð og raunsæi, og skynsemi. Heilbrigð trú er trú sem virðir Guð, jafnvel þótt hún skilji hann ekki, og ber virðingu fyrir náunganum, líka þeim sem er öðru vísi og jafnvel ógeðfelldur. Ekki í blindu og þöglu skoðanaleysi sem oft er nefnt umburðarlyndi, heldur því umburðarlyndi sem virðir manneskjuna og frelsi hennar. Og er því reiðubúin að gera grein fyrir afstöðu sinni, og taka við gagnrýni ef svo ber undir, í heiðarlegum og opnum skoðanaskiptum, sannleikanum trúr í kærleika.

Andtrúin er trú, iðulega borin uppi af trúarhita. Mannhyggjan er líka trú. Trú á mannsins mátt og megin og hyggjuvit. Ég vil ekki varpa rýrð á heilindi og trúarvissu þeirra sem fyrir því standa, en ég er hræddur um að mannsins megin og hyggjuvit nær skammt. Og verður seint grundvöllur hins góða samfélags. Reynslan sannar það.

Þjóðkirkjan vill greiða veg heilbrigðri trú, með boðun, bæn og þjónustu í kærleika. Deilur undanfarinna daga um sess trúar í skólum er ekkert hégómamál, heldur deila um grundvallaratriði. Málflutningur talsmanna trúleysis hefur verið öfgakenndur, og oft ofsafenginn. Veist er með grófum hætti að sannfæringu fólks sem rækir trú sína og ekki síst í garð þess fólks sem er í forsvari fyrir kirkju og trú og tekur meðvitaða, menntaða og ígrundaða afstöðu til trúarinnar. Andtrúin sækir inn í hin helgu vé.

Mannhyggja, húmanismi, er fallegt orð, og fögur hugsjón, sem sprottin er af rótum hins kristna fagnaðarerindis, mannskilnings og heimsmyndar. Kristin trú er mannúðarstefna, vegna þess að hún játar trú á Guð sem varð maður, Guð sem elskar manninn og virðir svo að hann gaf sinn einkason í dauðann, svo við mættum lifa. Guð sem varð maður og helgaði mannlegt allt, já lífið allt, himninum sínum, eilífð sinni. Sem heldur fram eilífu gildi sérhvers mannsbarns, líka hins veika og sjúka. Og hvetur sérhvern mann til að elska náungann eins og sjálfan sig. Af rótum kristninnar sprettur frelsi, já og mannréttindi og allt það besta sem vestræn menning hefur fram að færa.

Aldrei var brýnna en einmitt nú á tímum, andspænis vaxandi fjölmenningu, að efla kristinfræði og líka trúarbragðafræðslu í skólunum og að stórauka menntun kennara í þessum efnum. Annars teflum við því í tvísýnu hvort upprennandi kynslóðir verði yfirhöfuð læsar á menningu þjóðar sinnar. Þjóðkirkjan vill standa með skólunum og leggur höfuðáherslu á að trúarbragðafræðsla og kristinfræði fari fram á faglegum forsendum skólans og að fyllsta tillit sé tekið til ólíkra lífs- og trúarskoðana af virðingu og umburðarlyndi. Það gerist ekki með því að útiloka hinn trúarlega þátt og kærar hefðir eins og hatrammlega hefur verið kallað eftir í umræðunni undanfarið.

Það er nefnilega svo að trúhneigð manneskjunnar er ólæknandi, og leitar sér svölunar. Af því að Guð hefur skapað okkur til samfélags við sig og hjarta manns er órótt uns það hvílist í honum. Þetta er grundvallarstaðreynd. Og þegar Guði er úthýst úr lífi manns og mannhyggjan er sett á stall, þá verða það ekki frelsið og friðurinn og lífið sem við tekur, heldur helsið og hatrið og dauðinn. Það staðfestir öll reynsla.

VF-myndir/Hilmar Bragi
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024