Birgitta Hrönn: Fær ekki að vaxa og dafna
Erfiðasta lífsreynsla sem nokkur manneskja getur gengið í gegnum er að missa barn sitt. Sá eða sú sem stendur í fjarlægð getur ekki með neinu móti gert sér í hugarlund þær tilfinningar sem koma fram við slíkar aðstæður. Engin manneskja stendur hjá ósnortin yfir slíkum harmleik. Aðfararnótt 21. janúar lést dóttir hjónanna Karenar Hilmarsdóttur og Einars Árnasonar í Keflavík. Litla stúlkan sem nefnd var Birgitta Hrönn fæddist andvana á Landspítalanum í Reykjavík. Foreldrar Birgittu Hrannar ákváðu að segja sögu sína til að berjast fyrir því að auknu fjármagni verði veitt til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja svo skurðstofa stofnunarinnar verði til taks allan sólarhringinn.
Karen og Einar höfðu reynt að eignast barn í tæp þrjú ár áður en Karen varð ólétt með glasameðferð. Meðganga Karenar gekk mjög vel og var áætlað að barnið kæmi í heiminn þann 14. febrúar. En svo fór ekki og Karen missti legvatnið eftir miðnætti aðfaranótt föstudagsins 21. Janúar - þremur vikum fyrir tímann. Þegar legvatnið fór gekk naflastrengurinn fram og við það klemmdi höfuð barnsins naflastrenginn og stíflaði allt flæði í gegnum hann. Lífæð barnsins stíflaðist. Flytja þurfti Karen á Landspítalann í Reykjavík þar sem skurðstofur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja voru ekki opnar. Ekki er hægt að fullyrða að Birgitta Hrönn hefði lifað þó skurðstofurnar hefðu verið opnar en foreldrar hennar hafa ákveðið að berjast fyrir því að vakt verði á skurðstofunni allan sólarhringinn.
Allt var gert sem hægt var í stöðunni
Þessa afdrifaríku nótt kallaði Karen á Einar og sagði honum að hún hefði misst vatnið. Hann hringdi strax á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og var þeim sagt að fara á stofnunina en samt ekki með neinum asa. „Þegar við komum niðureftir þá var Karen sett í mónitor og þá kom strax í ljós að eitthvað var að. Ljósmóðirin fann að naflastrengurinn hafði fallið fram og hún byrjaði að gera allar þær aðgerðir sem í hennar valdi stóð að gera miðað við aðstæður. Hún hringdi strax á sjúkrabíl sem var fljótur á staðinn og þá áttaði maður sig fyrst á því að eitthvað væri að. Það var allt gert á þessum tímapunkti sem hægt var að gera, en það var ekki til staðar það sem við þurftum. Þegar við komum til Reykjavíkur var Karen strax skorin og þá kom í ljós að barnið var látið," segir Einar og tekur í hönd Karenar eiginkonu sinnar. Hann segir að allt hafi verið gert sem hægt hafi verið. „Eftir því sem mér skilst þá hefur þessi tími sem tekur að keyra til Reykjavíkur og allt hnjaskið sem á sér stað við flutninginn, ekki hjálpað til. En eins og ég hef svo oft sagt þá var allt gert sem hægt var að gera í þessari stöðu. Ljósmóðirin stóð sig mjög vel og gerði allt sem í hennar valdi stóð. Ef skurðstofan hefði verið opin þá væri möguleiki á að dóttir okkar væri á lífi. Sú þjónusta er bara ekki til staðar og við vonumst til að það lagist eftir þetta," segir Einar.
Fann að það var eitthvað mikið að
Karen segir að hennar upplifun af atburðarrásinni hafi verið sú að hún hafi verið á leiðinni á fæðingardeildina til að fæða barnið sitt. Hún var full tilhlökkunar og þau hjónin voru bæði brosandi út að eyrum þegar þau komu á spítalann. Karen segir að greinilegt hafi verið að dóttir þeirra hafi viljað koma fyrr í heiminn. „Um leið og ljósmóðirin setti mig í mónitorinn og sá að hjartslátturinn væri ekki eins og hann átti að vera þá fékk ég kvíða. Samt hugsaði ég að þetta væri eitthvað sem hægt væri að laga. En um leið og ljósmóðirin tók upp símann og hringdi á sjúkrabíl þá fylltist ég hræðslu. Mér fannst tíminn lengi að líða þegar við biðum eftir sjúkrabílnum og enn lengri þegar sjúkrabíllinn fór í forgangi eftir Reykjanesbrautinni. Ég fann að það var eitthvað mikið að og ég upplifði þá tilfinningu að þetta væri bara allt búið," segir Karen og lítur á myndina af Birgittu Hrönn sem stendur á hillu við hlið sófans. Á hillunni er einnig armbandið sem Birgitta fékk þegar hún fæddist og fallegt ljóð ásamt engli.
Vissi að hún væri dáin
Þegar Karen var komin á skurðstofuna á Landspítalanum í Reykjavík var tilfinning hennar um að eitthvað mikið væri að allsráðandi. „Einhvern veginn vissi ég inn í mér að þetta væri bara allt búið - að dóttir okkar væri dáin. Og það var eins og ég fann á mér - þegar ég vaknaði úr svæfingunni þá vissi ég að við værum búin að missa dóttur okkar," segir Karen sterk á svip.
Héldu á dóttur sinni
Þegar Karen vaknaði eftir svæfinguna fékk hún Birgittu Hrönn í hendurnar. Einar og Karen segja tímann með dóttur þeirra gríðarlega mikilvægan. „Það var rosalega gott og ég hefði ekki viljað missa af því," segir Karen og Einar bætir við. „Maður metur það ofsalega mikils að fá að halda á henni og sjá hana. Það var bara eins og hún væri sofandi - þetta var ekki óhugnanlegt - það var bara eins og barnið væri sofandi. Eftir á þá kemur það upp í huga manns að það eina sem vantaði var að hún opnaði augun. En það var ekki raunin og við erum ennþá dofin og í raun ekki búin að ná þessu ennþá þó við séum búin að jarðsetja hana. Við eigum í raun og veru eftir að taka út sorgina."
Dýrmætasti tími sem þau hafa upplifað
„Þetta var dýrmætasti tími sem ég hef upplifað," segir Karen og heldur fast í hönd Einars. „Þetta var stuttur tími og þetta var eini tíminn. Við héldum þarna á barninu okkar sem fær ekki að vaxa og dafna. Barnið okkar sem verður ekki unglingur og fullorðin. Bara það að hafa fengið að hafa hana þennan stutta tíma og njóta hennar þó hún hafi ekki fengið að lifa skiptir okkur miklu máli - það er ekki hægt að biðja um neitt meira. Að hafa fengið að halda á dóttur minni í þessar stuttu stundir er það verðmætasta sem ég hef nokkurn tíma fengið í lífinu."
Stuðningur starfsmanna mikilvægur
Einar segir að stuðningur starfsmanna á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hafi verið mikilvægur. Hann segir ljósmæður og starfsfólk fæðingardeildarinnar hafa vafið bómull um þau og grátið með þeim. „Þetta var eins og að koma heim - eins og að koma í stóra fjölskyldu og það hefur hjálpað okkur hvað mest," segir Einar en þau dvöldu um nokkurra daga skeið á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þar sem starfsfólkið hlúði að þeim. „Starfsfólkið á stofnuninni á svo miklar þakkir skilið að það er eiginlega ekki hægt að lýsa því," segir Einar og vill einnig koma á framfæri þakklæti til Richard Woodhead útfararstjóra hjá Útfararþjónustu Suðurnesja. „Hann aðstoðaði okkur ómetanlega mikið."
Ásaka ekki neinn
Einar og Karen segjast ekki ásaka neinn. Það hafi allir gert það sem í þeirra valdi stóð. Það eina sem þau segja hægt að ásaka sé fjármagnsleysi. „Við erum ekki að tala um stórar upphæðir til að hafa vaktir á skurðstofunni allan sólarhringinn. Við erum með mjög góða fæðingardeild og frábært starfsfólk en það vantar vaktir á skurðstofuna sem getur brugðist við í tilfellum eins og okkar. Við erum að tala um að það vanti um 40 milljónir á ársgrundvelli til að halda megi vöktunum úti. Það er kannski það helsta sem maður er sár út í," segja þau ákveðin á svip.
Eru ekki reið
Þau vilja taka það skýrt fram að þau séu ekki reið út í Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, né lækna þar eða hjúkrunarfólk, hvorki á Suðurnesjum eða í Reykjavík. „Það var ekki hægt að gera meira eins og staðan var. Við bara tókum þá ákvörðun að vera ekki reið út í neinn heldur frekar láta okkar missi og okkar sorg verða til þess að bætt verði úr málum hér. Við erum ungt fólk sem ætlar að búa í þessum bæ og við finnum fyrir ofboðslegri samstöðu frá öllum bæjarbúum, en við finnum líka fyrir reiði sem við erum ekki sátt við að snúist gegn Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Það eru bara svo margir sem eru hissa á því að ekki sé hægt að treysta á skurðstofurnar allan sólarhringinn," segja þau en skurðstofurnar eru opnar allan sólarhringinn tvo daga í viku.
Munu berjast fyrir því að skurðstofa verði til taks
Karen og Einar segjast ætla að berjast fyrir því að skurðstofa Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja verði opin allan sólarhringinn. „Við erum ekki hætt því þetta var okkar fyrsta barn og við ætlum okkur að eiga fleiri börn og það ætlum við að gera um leið og við erum tilbúin til þess. Ég vil ekki þurfa að vera með efasemdir um það hvort skurðstofa sé til staðar að nóttu til þegar ég þyrfti kannski á þjónustunni að halda. Auðvitað á maður eftir að velta því fyrir sér þegar ég verð ólétt aftur hvort allt verði í lagi. Ég vil bara búa við öryggi. Ég er héðan úr Keflavík og ég vil hvergi annars staðar vera, en ég vil líka geta eignast börn í öruggu umhverfi," segir Karen og Einar bætir við. „Það á náttúrulega ekki að líðast að þetta frábæra starfsfólk á stofnuninni þurfi að búa við það að geta ekki brugðist við í tilfellum sem okkar vegna þess að það vanti fjármagn."
Allt gerbreytt
En hvaða augum líta þau lífið eftir þetta mikla áfall? „Það er allt breytt. Við ætluðum að vera með barn hér heima. Við verðum að lifa með þessu og halda áfram. Það þýðir ekki að gefast upp. Við ætlum okkur að eignast önnur börn og láta þetta verða til að hjálpa öðrum. Lífið heldur áfram en þetta verður erfitt," segja þau. Þegar Karen og Einar eru spurð hvernig sú upplifun sé að fylgja barninu sínu til grafar svara þau. „Sá raunveruleiki á eftir að koma í ljós. Mér finnst þetta allt svo ótrúlegt. Við erum búin að gráta og við erum búin að syrgja en við höfum líka reynt að bíta á jaxlinn og vera sterk. Það er ekki hægt að lýsa þess á einn veg. Við eigum bara eftir að vakna upp við það einn daginn að þetta sé raunveruleikinn; að þetta hafi verið dóttir okkar sem við vorum að jarðsetja."
Myndirnar eiga eftir að hjálpa
Myndir af Birgittu Hrönn eru víða um stofuna hjá Karen og Einari. Kerti lýsa upp stofuna og við hlið myndanna eru englar. Þau segja að það skipti þau miklu máli að eiga myndir af Birgittu Hrönn til að geta skoðað í framtíðinni. „Hún er fullsköpuð og hún er einstaklingur og það að hafa fengið tíma með henni skiptir svo miklu máli. Myndirnar eiga eftir að hjálpa okkur í gegnum þetta. Dóttir okkar er fallegt barn og minningin lifir í gegnum myndirnar," segja þau og líta í augu hvors annars. En hvernig blasir framtíðin við þeim? „Við ætlum að halda áfram og gefast ekki upp. Eftir þrjá mánuði verð ég tilbúin til að hefja glasafrjóvgunarferlið á ný og vonandi verðum við með nýfætt barn á fæðingardeildinni hér eftir ár. Dóttir okkar á alltaf eftir að setja stórt skarð í lífið en hún er samt með okkur og það sem við fengum að kynnast henni og myndirnar sem við fengum - allt þetta skiptir okkur svo miklu máli. Við verðum að halda áfram og lifa lífinu - það þýðir ekkert að gefast upp. Þegar við eignumst fleiri börn þá getum við sagt þeim börnum frá litlu systur sinni. Það kemur ekki annað barn í staðinn fyrir hana - hún á alltaf eftir að lifa í hjörtum okkar."
Eftir Jóhannes Kr. Kristjánsson
Ljósmyndir: Ingi R. Ingason og úr einkasafni.
Karen og Einar höfðu reynt að eignast barn í tæp þrjú ár áður en Karen varð ólétt með glasameðferð. Meðganga Karenar gekk mjög vel og var áætlað að barnið kæmi í heiminn þann 14. febrúar. En svo fór ekki og Karen missti legvatnið eftir miðnætti aðfaranótt föstudagsins 21. Janúar - þremur vikum fyrir tímann. Þegar legvatnið fór gekk naflastrengurinn fram og við það klemmdi höfuð barnsins naflastrenginn og stíflaði allt flæði í gegnum hann. Lífæð barnsins stíflaðist. Flytja þurfti Karen á Landspítalann í Reykjavík þar sem skurðstofur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja voru ekki opnar. Ekki er hægt að fullyrða að Birgitta Hrönn hefði lifað þó skurðstofurnar hefðu verið opnar en foreldrar hennar hafa ákveðið að berjast fyrir því að vakt verði á skurðstofunni allan sólarhringinn.
Allt var gert sem hægt var í stöðunni
Þessa afdrifaríku nótt kallaði Karen á Einar og sagði honum að hún hefði misst vatnið. Hann hringdi strax á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og var þeim sagt að fara á stofnunina en samt ekki með neinum asa. „Þegar við komum niðureftir þá var Karen sett í mónitor og þá kom strax í ljós að eitthvað var að. Ljósmóðirin fann að naflastrengurinn hafði fallið fram og hún byrjaði að gera allar þær aðgerðir sem í hennar valdi stóð að gera miðað við aðstæður. Hún hringdi strax á sjúkrabíl sem var fljótur á staðinn og þá áttaði maður sig fyrst á því að eitthvað væri að. Það var allt gert á þessum tímapunkti sem hægt var að gera, en það var ekki til staðar það sem við þurftum. Þegar við komum til Reykjavíkur var Karen strax skorin og þá kom í ljós að barnið var látið," segir Einar og tekur í hönd Karenar eiginkonu sinnar. Hann segir að allt hafi verið gert sem hægt hafi verið. „Eftir því sem mér skilst þá hefur þessi tími sem tekur að keyra til Reykjavíkur og allt hnjaskið sem á sér stað við flutninginn, ekki hjálpað til. En eins og ég hef svo oft sagt þá var allt gert sem hægt var að gera í þessari stöðu. Ljósmóðirin stóð sig mjög vel og gerði allt sem í hennar valdi stóð. Ef skurðstofan hefði verið opin þá væri möguleiki á að dóttir okkar væri á lífi. Sú þjónusta er bara ekki til staðar og við vonumst til að það lagist eftir þetta," segir Einar.
Fann að það var eitthvað mikið að
Karen segir að hennar upplifun af atburðarrásinni hafi verið sú að hún hafi verið á leiðinni á fæðingardeildina til að fæða barnið sitt. Hún var full tilhlökkunar og þau hjónin voru bæði brosandi út að eyrum þegar þau komu á spítalann. Karen segir að greinilegt hafi verið að dóttir þeirra hafi viljað koma fyrr í heiminn. „Um leið og ljósmóðirin setti mig í mónitorinn og sá að hjartslátturinn væri ekki eins og hann átti að vera þá fékk ég kvíða. Samt hugsaði ég að þetta væri eitthvað sem hægt væri að laga. En um leið og ljósmóðirin tók upp símann og hringdi á sjúkrabíl þá fylltist ég hræðslu. Mér fannst tíminn lengi að líða þegar við biðum eftir sjúkrabílnum og enn lengri þegar sjúkrabíllinn fór í forgangi eftir Reykjanesbrautinni. Ég fann að það var eitthvað mikið að og ég upplifði þá tilfinningu að þetta væri bara allt búið," segir Karen og lítur á myndina af Birgittu Hrönn sem stendur á hillu við hlið sófans. Á hillunni er einnig armbandið sem Birgitta fékk þegar hún fæddist og fallegt ljóð ásamt engli.
Vissi að hún væri dáin
Þegar Karen var komin á skurðstofuna á Landspítalanum í Reykjavík var tilfinning hennar um að eitthvað mikið væri að allsráðandi. „Einhvern veginn vissi ég inn í mér að þetta væri bara allt búið - að dóttir okkar væri dáin. Og það var eins og ég fann á mér - þegar ég vaknaði úr svæfingunni þá vissi ég að við værum búin að missa dóttur okkar," segir Karen sterk á svip.
Héldu á dóttur sinni
Þegar Karen vaknaði eftir svæfinguna fékk hún Birgittu Hrönn í hendurnar. Einar og Karen segja tímann með dóttur þeirra gríðarlega mikilvægan. „Það var rosalega gott og ég hefði ekki viljað missa af því," segir Karen og Einar bætir við. „Maður metur það ofsalega mikils að fá að halda á henni og sjá hana. Það var bara eins og hún væri sofandi - þetta var ekki óhugnanlegt - það var bara eins og barnið væri sofandi. Eftir á þá kemur það upp í huga manns að það eina sem vantaði var að hún opnaði augun. En það var ekki raunin og við erum ennþá dofin og í raun ekki búin að ná þessu ennþá þó við séum búin að jarðsetja hana. Við eigum í raun og veru eftir að taka út sorgina."
Dýrmætasti tími sem þau hafa upplifað
„Þetta var dýrmætasti tími sem ég hef upplifað," segir Karen og heldur fast í hönd Einars. „Þetta var stuttur tími og þetta var eini tíminn. Við héldum þarna á barninu okkar sem fær ekki að vaxa og dafna. Barnið okkar sem verður ekki unglingur og fullorðin. Bara það að hafa fengið að hafa hana þennan stutta tíma og njóta hennar þó hún hafi ekki fengið að lifa skiptir okkur miklu máli - það er ekki hægt að biðja um neitt meira. Að hafa fengið að halda á dóttur minni í þessar stuttu stundir er það verðmætasta sem ég hef nokkurn tíma fengið í lífinu."
Stuðningur starfsmanna mikilvægur
Einar segir að stuðningur starfsmanna á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hafi verið mikilvægur. Hann segir ljósmæður og starfsfólk fæðingardeildarinnar hafa vafið bómull um þau og grátið með þeim. „Þetta var eins og að koma heim - eins og að koma í stóra fjölskyldu og það hefur hjálpað okkur hvað mest," segir Einar en þau dvöldu um nokkurra daga skeið á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þar sem starfsfólkið hlúði að þeim. „Starfsfólkið á stofnuninni á svo miklar þakkir skilið að það er eiginlega ekki hægt að lýsa því," segir Einar og vill einnig koma á framfæri þakklæti til Richard Woodhead útfararstjóra hjá Útfararþjónustu Suðurnesja. „Hann aðstoðaði okkur ómetanlega mikið."
Ásaka ekki neinn
Einar og Karen segjast ekki ásaka neinn. Það hafi allir gert það sem í þeirra valdi stóð. Það eina sem þau segja hægt að ásaka sé fjármagnsleysi. „Við erum ekki að tala um stórar upphæðir til að hafa vaktir á skurðstofunni allan sólarhringinn. Við erum með mjög góða fæðingardeild og frábært starfsfólk en það vantar vaktir á skurðstofuna sem getur brugðist við í tilfellum eins og okkar. Við erum að tala um að það vanti um 40 milljónir á ársgrundvelli til að halda megi vöktunum úti. Það er kannski það helsta sem maður er sár út í," segja þau ákveðin á svip.
Eru ekki reið
Þau vilja taka það skýrt fram að þau séu ekki reið út í Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, né lækna þar eða hjúkrunarfólk, hvorki á Suðurnesjum eða í Reykjavík. „Það var ekki hægt að gera meira eins og staðan var. Við bara tókum þá ákvörðun að vera ekki reið út í neinn heldur frekar láta okkar missi og okkar sorg verða til þess að bætt verði úr málum hér. Við erum ungt fólk sem ætlar að búa í þessum bæ og við finnum fyrir ofboðslegri samstöðu frá öllum bæjarbúum, en við finnum líka fyrir reiði sem við erum ekki sátt við að snúist gegn Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Það eru bara svo margir sem eru hissa á því að ekki sé hægt að treysta á skurðstofurnar allan sólarhringinn," segja þau en skurðstofurnar eru opnar allan sólarhringinn tvo daga í viku.
Munu berjast fyrir því að skurðstofa verði til taks
Karen og Einar segjast ætla að berjast fyrir því að skurðstofa Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja verði opin allan sólarhringinn. „Við erum ekki hætt því þetta var okkar fyrsta barn og við ætlum okkur að eiga fleiri börn og það ætlum við að gera um leið og við erum tilbúin til þess. Ég vil ekki þurfa að vera með efasemdir um það hvort skurðstofa sé til staðar að nóttu til þegar ég þyrfti kannski á þjónustunni að halda. Auðvitað á maður eftir að velta því fyrir sér þegar ég verð ólétt aftur hvort allt verði í lagi. Ég vil bara búa við öryggi. Ég er héðan úr Keflavík og ég vil hvergi annars staðar vera, en ég vil líka geta eignast börn í öruggu umhverfi," segir Karen og Einar bætir við. „Það á náttúrulega ekki að líðast að þetta frábæra starfsfólk á stofnuninni þurfi að búa við það að geta ekki brugðist við í tilfellum sem okkar vegna þess að það vanti fjármagn."
Allt gerbreytt
En hvaða augum líta þau lífið eftir þetta mikla áfall? „Það er allt breytt. Við ætluðum að vera með barn hér heima. Við verðum að lifa með þessu og halda áfram. Það þýðir ekki að gefast upp. Við ætlum okkur að eignast önnur börn og láta þetta verða til að hjálpa öðrum. Lífið heldur áfram en þetta verður erfitt," segja þau. Þegar Karen og Einar eru spurð hvernig sú upplifun sé að fylgja barninu sínu til grafar svara þau. „Sá raunveruleiki á eftir að koma í ljós. Mér finnst þetta allt svo ótrúlegt. Við erum búin að gráta og við erum búin að syrgja en við höfum líka reynt að bíta á jaxlinn og vera sterk. Það er ekki hægt að lýsa þess á einn veg. Við eigum bara eftir að vakna upp við það einn daginn að þetta sé raunveruleikinn; að þetta hafi verið dóttir okkar sem við vorum að jarðsetja."
Myndirnar eiga eftir að hjálpa
Myndir af Birgittu Hrönn eru víða um stofuna hjá Karen og Einari. Kerti lýsa upp stofuna og við hlið myndanna eru englar. Þau segja að það skipti þau miklu máli að eiga myndir af Birgittu Hrönn til að geta skoðað í framtíðinni. „Hún er fullsköpuð og hún er einstaklingur og það að hafa fengið tíma með henni skiptir svo miklu máli. Myndirnar eiga eftir að hjálpa okkur í gegnum þetta. Dóttir okkar er fallegt barn og minningin lifir í gegnum myndirnar," segja þau og líta í augu hvors annars. En hvernig blasir framtíðin við þeim? „Við ætlum að halda áfram og gefast ekki upp. Eftir þrjá mánuði verð ég tilbúin til að hefja glasafrjóvgunarferlið á ný og vonandi verðum við með nýfætt barn á fæðingardeildinni hér eftir ár. Dóttir okkar á alltaf eftir að setja stórt skarð í lífið en hún er samt með okkur og það sem við fengum að kynnast henni og myndirnar sem við fengum - allt þetta skiptir okkur svo miklu máli. Við verðum að halda áfram og lifa lífinu - það þýðir ekkert að gefast upp. Þegar við eignumst fleiri börn þá getum við sagt þeim börnum frá litlu systur sinni. Það kemur ekki annað barn í staðinn fyrir hana - hún á alltaf eftir að lifa í hjörtum okkar."
Eftir Jóhannes Kr. Kristjánsson
Ljósmyndir: Ingi R. Ingason og úr einkasafni.