Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Birgitta ætlar að kenna ungu fólki gleði
Fimmtudagur 22. nóvember 2007 kl. 13:38

Birgitta ætlar að kenna ungu fólki gleði

- Birgitta Jónsdóttir Klasen hrein og bein í viðtali við Víkurfréttir.

Þeir eru ófáir sem sótt hafa í viskubrunn Birgittu Jónsdóttur Klasen. Hún hefur undanfarin ár verið með nuddbekk sinn í kjallara Flughótels í Keflavík og verið bókuð margar vikur fram í tímann. Einnig hefur hún haldið námskeið víða um land og gefið út bók. Nú eru þrjár bækur í smíðum hjá Birgittu og á nýju ári hefur hún áhuga á  að kenna ungu fólki gleði og jákvæðni, eitthvað sem Birgittu finnst vanta hjá mörgu ungu fólki í dag. Birgitta er áhugaverð kona. Dagbókin hennar Birgittu er þéttbókuð en blaðamaður Víkurfrétta átti stefnumót við Birgittu á hinum nýja og glæsilega veitingastað í Keflavík, Primo, yfir hádegismat nú á dögunum. Þar kom Birgitta fram hrein og bein og talaði umbúðalaust um áhugamál og áhyggjur sem hún hefur. Birgitta ræðir um æskuárin í Þýskalandi, komuna til Íslands, störf sín hér og í Þýskalandi og ræðir einnig um útlendingamál, sem hún segir ekki í góðum farvegi.

Kunn alþjóð úr sjónvarpi

Birgitta varð kunn alþjóð fyrir nokkrum árum þegar hún var vikulegur gestur í morgunsjónvarpi Stöðvar 2 og fræddi þar fólk um sólartýpur og tungltýpur. Í kjölfarið gaf Birgitta út bók um svæðameðferð. Hún blandaði sér einnig í stjórnmál í aðdraganda síðustu kosninga þegar hún gaf kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Hún segist ekki hafa náð tilætluðum árangri þar, og þó, því hún hafi náð að kynna sig og þau mál sem hún hafi viljað berjast fyrir. Áhugasvið hennar sé í heilbrigðismálum og þar séu mál sem hún vilji taka á.

Upplifði ekki mikla gleði sem barn

Birgitta er fædd í Lübeck Þýskalandi 28. mars 1952 og bjó þar til ársins 2000, að undanskildum tveimur árum þegar hún gekk í gagnfræðaskóla í Keflavík. Birgitta hefur aldrei áður rætt um æskuárin í Þýskalandi eftirstríðsáranna. Hún hafi ekki upplifað mikla gleði sem barn og lífið hafi í raun verið meira en hundleiðinlegt. Lífsreynsla hennar sem barn hafi mótað hana fyrir lífstíð. Hún nefnir að sem barn í Þýskalandi hafi hún ekki mikið mátt sækja skóla. „Þegar ég átti að fara í skóla var ég frekar sett í vinnu. Það voru engin tækifæri fyrir mig á þessum árum í Þýskalandi. Ég fékk mín tækifæri síðar til að gera mína hluti og koma mér á framfæri“, segir Birgitta í samtali við blaðamann.

Hún minnist þess þegar hún hafi verið fimm eða sex ára gömul og þurft að þola pirring frá frænda sínum og frænku í Þýskalandi, hafi hún gripið til þess ráðs að nudda fætur þeirra til að fá þau til að slaka á. Strax sem barn hafi hún áttað sig á að þetta varð til þess að bæta líðan fólks, enda fjöldi taugaenda í fótum sem leiða um allan líkamann.

Stórar breytingar á stuttum tíma

„Ég hafði lifað allt mitt líf í Þýskalandi. Ég kom fyrst til Íslands og Keflavíkur í lok ársins 1967 og var hér til ársins 1970. Þetta var fyrsta stund lífs míns sem mér leið vel. Það var tekið mjög vel á móti mér hér heima af allri stórfjölskyldunni. Fyrir mig urðu á stuttum tíma stórar breytingar. Ég mátti til dæmis fara í skólann, sem ég hafði farið á mis við í Þýskalandi.

Ég hafði það alls ekki gott í Þýskalandi eins og ég sagði áðan, en ég vil engum kenna um það. Á árunum eftir stríð og alveg til ársins 1970 eða jafnvel 1975 var fólk fast í þessum tíma þegar stríðið var. Það var því gríðarleg breyting fyrir mig að koma til Íslands í fyrsta skipti.

Eftir tvö ár á Íslandi fór ég aftur til Þýskalands en langaði alltaf til Íslands aftur. Það tók mig hins vegar bara rúm 22 ár í viðbót að láta það gerast“. Birgitta flutti síðan alfarið til Íslands árið 2000.

Hef örugglega bara þessi gen að vera ein

Birgitta var í föstu sambandi í Þýskalandi í um 10 ár og átti þar fósturson, en tókst ekki að halda því sambandi áfram til Íslands. Birgitta segist hafa stundað vinnu allt sitt líf og kannski ekki gefið fjölskyldunni nægan gaum. „Mér fannst ég koma heim seint á kvöldin. Ég hafði svo mikið að gera sjálf. Fór seint að sofa og vaknaði snemma til að láta lífið ganga. Hver kannast ekki við þetta?“, spyr Birgitta blaðamann og brosir.

„Þó svo allt sem ég vildi hafi ekki gengið upp á Íslandi, þá vil ég vera hérna. Ég get vel andað hér. Ég hef komið mér vel fyrir og á nokkra mjög góða vini og pabba og mömmu. Það finnst mér mjög vænt um líka. Ég sé mig ekki fyrir mér að fara að búa til fjölskyldu í dag, 55 ára. Ég á minn hund sem ég knúsa. Mér líður vel að vera ein. Það væri stundum gott að vera tvö, en ég hef örugglega bara þessi gen að vera ein“.

Birgitta nefnir það í mörgum samböndum passi fólk alls ekki saman. Það sem börn vilja eru góðir og hamingjusamir foreldrar. „Það skiptir ekki máli hvort mamman búi hér og pabbi þar. Það vantar líf í svo margar fölskyldur hér á landi. Þær eru bara dauðar. Ég er ekki að hvetja fólk til skilnaðar, en fólk verður að gefa heimilinu og börnunum meiri gaum“.

Náttúrulæknir frá þýskum háskóla

Birgitta útskrifaðist sem náttúrulæknir frá þýskum háskóla árið 1973 og er einnig menntuð í sálfræðilegri ráðgjöf og félagsráðgjöf fyrir konur. Hún er auk þess með kennsluréttindi og hefur meðal annars kennt svæðameðferð og öndunarmeðferð við ýmsa háskóla í Þýskalandi og var gestadósent við Volkshochschule Cuxhaven 1990-1996.
Birgitta var með sjálfstæðan rekstur í Þýskalandi á árunum 1973-2000, meðal annars á sviði náttúrulæknisfræði, sálfræðilegrar ráðgjafar, veitingarekstrar og félagsráðgjafar HIV smitaðra.

„Ég vissi alltaf hvað ég vildi. Ég hef alltaf reynt að vara sterk fyrir sjálfa mig, þó svo ég sé viðkvæm persóna. Eftir 1970 fór ég út að læra náttúrulækningar. Ég fann strax  að ég átti heima þarna. Strax sem barn fékk ég þá reynslu að ef maður hjálpaði fólki t.d. með nuddi, þá leið því betur. Þarna velti ég fyrir mér spurningunni: Hvað viltu vera þegar þú ert orðin stór? Ég hafði alltaf sagt að ég vildi fara inn í heilbrigðismálin. Ég átti örugglega heima þar.

Þegar maður er svo farin að kynnast líkamanum og líffærunum, þá er líka gaman að þekkja inn á hugann og því lagði ég stund á nám í sálfræðiráðgjöf.
Ég vildi ekki starfa sem sálfræðingur og sitja á skrifstofu og hlusta á fólk. Ég vildi hjálpa fólki. Ég nenni heldur ekki sjá fólk með endalaus lyf og ávísa bara á pillur. Það er hægt að gera svo margt annað til að hjálpa fólki. Það er fullt af fólki sem hefur verið ávísað á þunglyndislyf í yfir 20 ár. Það er ótrúlegt hvað er í gangi og þetta gengur ekki.

Góður árangur í baráttu við þunglyndi

Ég hef verið að ná góðum árangri með fólk sem hefur verið að glíma við þunglyndi. Ég hef kallað mig „Streetwalker“ eða götuhjálpara í þessum málum. Fólk byrjar með létt þunglyndi, svo safnast þetta upp. Maður á að hjálpa fólki strax en ekki dæla í  það fullt af lyfjum. Það þarf líka að koma þunglyndum á námskeið til að létta lundina. Ég nefni handverksnámskeið og tónlistarnámskeið sem dæmi. Þetta má vera hluti af heilbrigðiskerfinu. Það má spara mikið af peningum með því að hjálpa fólki á réttan hátt, frekar en að vera með fólk á lyfjum og lasið kannski í 20 ár. Þú sparar með því að gera fólk hamingjusamt. Þeir sem eru þunglyndir nenna heldur ekki að loka sig svona inni á bakvið dimm gluggatjöld. Þeir vilja líka lifa og anda. Fyrir þetta fólk hefur vantað tækifæri. Sendum þetta fólk í jógakennslu eða á önnur námskeið til að byggja sig upp. Í staðinn fyrir þunglyndislyfin mætti gefa létt vítamín. Sálfræðingar eiga að vita hvaða vítamín duga þessu fólki best“, segir Birgitta og er ákveðin.

Birgitta hefur notað lækningameðferðir þar sem höndum er beitt með góðum árangri. Má þar nefna sjúkraþjálfun, viðbragðsnudd, shiatsu og þrýstipunktameðferð. Hún hefur starfað við þetta árum saman og rekur eigin meðferðarstofu á flughótelinu í Reykjanesbæ.

Horfir til sjö ára í senn

Birgitta hefur það viðhorf í lífinu að horfa til sjö ára í senn og segir tíma á breytingar að sjö árum liðnum. Birgitta horfir nú fram á breytingar og ný verkefni. Hún ætli sér ekki að loka stofunni í Flughóteli, heldur séu ný verkefni að ná tökum á henni, þar sem hún vill láta til sín taka. Hún hefur ákveðnar áhyggjur af unga fólkinu og vill kenna því ýmislegt um gleði og hamingju.

Í komandi jólafríi ætlar Birgitta að undirbúa verkefni fyrir börn í 8. til 10. bekk grunnskóla.

„Börn þurfa að læra að vera glöð. Það er hins vegar hlutur sem þau læra ekki í skóla. Í skólakerfinu eru börnin með mikið námsefni á bakinu alla daga og skipunin er að læra þetta og hitt allan daginn, alla daga. Krakkar í dag eiga ekki tækifæri til að lifa. Við sjáum þetta á unga fólkinu sem er að vinna á kassanum úti í næstu matvörubúð. Þar vantar alla gleði. Ég er hins vegar að útbúa verkefni til að fara með inn í skólana, þar sem ég vil kenna ungu fólki gleði. Börn og ungmenni þurfa að vera hamingjusöm og við þurfum að kenna þeim sjálfsöryggi. Börn hafa ekkert sjálfsöryggi í dag. Inni á heimilunum virðast foreldrar ekki hafa tíma fyrir börnin sín og þeim er hent út úr hreiðrunum og sagt að læra að fljúga sjálf. Þetta er ekki að ganga. Við verðum að búa börnin okkar betur fyrir lífið.

Ég hef haldið námskeið víða og er alltaf að hitta fólk sem segist vera að læra að öðlast sjálfstraust. Ég hef spurt: Hefur fólkið á heimilinu ekki gefið þér nógu mikið sjálfstraust til að standa á eigin fótum? Til að fara út og vera glöð og brosa við lífinu. Við verðum að undirbúa þessi börn fyrir lífið. Við verðum að koma þessu inn í skólakerfið, en til þess þarf ég nokkra góða kennara. Mig vantar 5-7 aðila, íþróttafræðinga, kennara og fleiri sem hafa menntun til að koma þessu til leiðar. Nú er ég ekki bara að horfa til Reykjanesbæjar, heldur til allra krakka og ungmenna á Íslandi.

Ég verð að gera eitthvað í þessum málum því mér finnst það vera mín ábyrgð að leggja eitthvað til málanna. Þetta verkefni ætla ég að skipuleggja í jólafríinu mínu og koma því á framfæri árið 2008. Gefum krökkum tækifæri“.

Eldri borgarar þurfa líka líf

Birgitta hefur ekki bara áhyggjur af unga fólkinu. Eldri borgarar eru henni einnig hugleiknir. „Þeir eiga líka að fá tækifæri. Það er ekki nóg að setja eldra fólk inn í fínt og flott húsnæði svo það geti hugsað: „Nú ætla ég bara að vera gamall“. Förum út úr húsi með gamla fólkið.
Þegar ég var við störf í Þýskalandi, var ég að vinna á elliheimili, í fangelsi, skólum og víðar. Á elliheimilinum fórum við inn með leikskólabörn og létum þau borða saman með eldra fólkinu. Hver eldri borgari átti lítinn ungan vin og það sem þau gerðu var bara að borða saman. Börn smita ekki eldri borgara af sjúkdómum eða öfugt. Börn hafa gaman af því að setjast niður með eldra fólki og læra af því. Eldri borgarar vilja eiga börn sem vini. Þetta eykur hamingju eldri borgara og við viljum öll vera hamingjusöm“. Þetta eykur einnig sjálfstraust barnanna.

Fólk að missa af uppvaxtarárum barnanna

Birgitta hefur áhyggjur af því að börnin virðast vera fyrir á mörgum heimilum. „Þegar foreldrarnir koma heim á kvöldin þá eru allir svo þreyttir eftir t.d. 12 stunda vinnudag og gamaldags 2-2-3 vaktakerfi. Þetta er kerfi er eldgamalt og hefur verið að eyðileggja fjölskyldurnar. Við sjáum það nú, en höfum kannski ekki séð þetta áður. Fólk er að koma örþreytt heim úr vinnunni og segir: Bíddu, eigum við þennan líka? Og bendir á yngsta barnið á heimilinu“. Birgitta hefur áhyggjur af því að fjölskyldur þekkist varla og að fólk sé að missa af uppvaxtarárum barnanna sinna. Birgitta segist sjá mörg dæmi um þetta í sínum störfum.

„Fólk er búið að gleyma að anda, nærast og lifa sínu lífi. Það er mikil neikvæðni í gangi í samfélaginu því það vantar jákvæða hluti í kringum fólk. Fólk þarf að taka sig á. „Fólk þarf að segja við sjálft sig: „Við eigum þessa fjölskyldu og við ætlum að gera eitthvað fyrir okkur sjálf“. Börnin eru fljót að stækka. Á morgun eru þau komin í háskólann eða bara farin að heima. Fólk er að gleyma að setja sjálft sig í fyrsta sæti. Foreldrar eiga að segja við sjálfan sig að þeir eigi að vera nógu sterkir fyrir sjálfan sig og börnin sín. Börnin eru framtíð morgundagsins“.

Námsmenn án næringar

Birgitta hefur einnig áhyggjur af unga fólkinu í framhaldsskólunum. Námsfólkið er ekki að nærast á réttan hátt og nefnir dæmi úr skóla sem hún heimsótti um daginn: „Ég var í menntaskóla um daginn með námskeið. Þar voru 20 unglingar á aldrinum 17-20 ára.. Þetta var klukkan eitt um daginn. Ekkert þeirra hafði borðað morgunmat, ekkert hafði borðað hádegismat og ekkert þeirra hafði drukkið nokkurn skaðapan hlut af vatni. Þau sátu þarna hálfpartinn dauð og það komst ekki neitt inn í höfuðið á þeim.

Hverjum er þetta að kenna? Foreldrum heima á heimilunum! Þar vantar aga. „Komið og setjist niður og borðið morgunmat“. Ef uppeldið er þannig að við sinnum börnunum okkar ekki, hver á þá að gera það?“, spyr Birgitta.

Nýja og gamla Ísland

Frá því Birgitta kom til Íslands með það að markmiði að setjast hér að til framtíðar hafa orðið miklar breytingar á landi og þjóð. „Þegar ég kom hingað til lands árið 2000 var það sem ég kalla gamla Ísland. Þetta er mjög áhugavert, gamla Ísland og nýja Ísland. Hið nýja Ísland er á kafi í hnattvæðingunni. Nú vilja allir stóra sundlaug í garðinn og fá sína peninga. Hins vegar þetta gamla Ísland sem fólk hafði innra með sér, náttúrubörnin, er að týnast. Það er sorglegt að fólk er að týna sér í hraða lífsins í dag“.

Birgitta talar um að mikil breyting hafi orðið á Íslandi síðan hún kom hingað fyrir sjö árum. Fyrstu tvö árin hafi hún brosað hringinn yfir því að vera komin heim frá Þýskalandi. „Ég kalla þetta heim, því öll vitum við þegar við komum heim. Ég hef alltaf sagt að ég hafi verið á röngum stað í Þýskalandi, þó svo ég hafi verið að vinna þar. Ég hef gert mína hluti þar og sótti mína menntun þangað. Nú er ég hins vegar komin heim til Íslands og vil halda áfram að miðla því hér sem ég lærði í Þýskalandi. Landið hefur hins vegar á síðustu fimm árum breyst alveg ótrúlega mikið. Þegar maður vaknar á daginn og hugsar: Hvað er nú að gerast? Það eru alveg ótrúlegar breytingar hér á landi. Og þetta snýst allt um peninga, peninga, peninga. Ég loka stundum augunum og segi við sjálfa mig: Ég get ekki hlustað á þetta. Við Íslendingar erum búnir að gleyma uppruna okkar.

Þúsundir hafa sótt námskeið Birgittu

Á ferlinum hefur Birgitta haldið fjölda námskeiða og á Þýskalandsárum hennar fékk hún á milli 7-8000 manns á námskeið til sín og hér heima á Íslandi hefur fjöldinn allur sótt námskeið til Birgittu.

„Íslendingar hafa gaman af því í dag að fara á námskeið en það vill brenna við að þeir séu búnir að gleyma efni námskeiðsins um leið og þeir ganga út um dyrnar. Ég hvet fólk til að taka þá hluti sem það lærir á námskeiði og setja þá inn í líf sitt heima hjá sér. Fólk sem er að kenna á námskeiðum gerir það ekki til að fá peninga, það gerir það því það vill koma þekkingu sinni á framfæri og virkja hana til framfara. Íslendingar eru opnir fyrir framförum, það er engin spurning.

Ég hvet fólk til að nýta sér það sem það lærir á mínum námskeiðum. Ég hef verið að fá hringingar frá fólki sem er að nýta sér þá reynslu sem það fær hjá mér og segir að hún sé að skila sér. Svo segja aðrir: Ég hef ekki tíma til að gera þetta.

Samvinna lækna og náttúrulækna

Náttúrulæknar hafa átt erfitt með að fá viðurkenningu hér heima á Íslandi og segir Birgitta aðra stöðu vera uppi í Þýskalandi.
„Í Þýskalandi er mikið um það að heimilislæknar og náttúrulæknar vinni saman að úrlausn mála. Heimilislæknar leita til náttúrulækna og öfugt með sína skjólstæðinga. Hér á Íslandi þekkist þetta ekki. Hér ríkja fordómar. Ég hef rætt við hjúkrunarfræðinga hér heima og þeir eru byrjaðir að vera opnir fyrir náttúrulækningum. Ég get hins vegar ekki séð hvað við náttúrulæknar höfum gert heimilislæknum. Við erum ekki að vinna má móti þeim. Við erum alltaf tilbúin að opna okkur fyrir þeim. Í Þýskalandi erum við náttúrulæknar alveg löggildir. Annað hvort getur þú unnið í faginu eða ekki“.

Gerum ekkert í útlendingamálum

Það fer að líða að lokum þessa samtals og talið berst að útlendingamálum hér heima á Íslandi og þá í tengslum við fréttir um nauðganir á konum þar sem erlendir karlmenn eiga hlut að máli. Birgitta þekkir vel til kynferðisofbeldis. m.a. eftir að hafa starfað í félagsráðgjöf fyrir konur og með samtökum svipuðum og Stígamótum hér heima á Íslandi. Birgitta segir að stjórnvöld verði að taka sér tak svo konur á Íslandi geri verið öruggar. Hér séu dómar fyrir kynferðisbrot alltof vægir. Það megi ekki senda þau skilaboð út að menn þurfi að sitja inni í örfáa mánuði fyrir brot gegn konum, því það kalli eingöngu á að brotin endurtaki sig. Nauðgarar eigi að fara í minnst 10 ára fangelsi. Birgitta bendir á þann fjölda t.d. erlendra verkamanna sem komi hingað til lands, konulausir. „Þetta eru vinnandi menn, fullir af hormónum. Eftir ákveðinn tíma fer þörfin að segja til sín hjá þessum mönnum, þeir fara að drekka áfengi, lenda í áflogum og síðan að misnota konur. Þetta gerist allt á mjög stuttum tíma og því miður höfum við mörg nýleg dæmi úr fréttum. Við Íslendingar höfum hins vegar ekki haft kjark til að að taka á þessum málum og setja skýrari reglur. Við rífumst um útlendingamál en gerum ekkert í þeim. Það vantar að upplýsa útlendinga um íslenskt samfélag og við verðum að tala um þessi mál umbúðalaust. Ég vil sjá útlendinga koma hingað til lands með sínar fjölskyldur. Þau geta sest hér að í ár, mennirnir fara út að vinna og þeir geta stundað sitt kynlíf með sínum konum. Konur á Íslandi eiga ekki að þurfa óttast það að vera einar á ferð og hrósa happi yfir því að komast óskaddaðar heim“, segir Birgitta Jónsdóttir Klasen að endingu.

Texti og  myndir:
Hilmar Bragi Bárðarson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024