Birgir veður í þingið
Birgir Þórarinsson, varaþingmaður Framsóknarflokks í Suðurkjördæmi, tók sæti á Alþingi í vikunni fyrir Sigurð Inga Jóhannsson. Birgir spurði fjármálaráðherra um fjárveitingar til Fjölbrautaskóla Suðurnesja og hvers vegna skólinn hafi ekki fengið sömu hækkun á milli ára eins og aðrir framhaldsskólar.
FS fær um 3,7% hækkun á fjárveitingu milli ára á meðan aðrir skólar fá meðaltalshækkun upp á 8%. Þetta er þvert á yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um að styrkja menntastofnanir á Suðurnesjum.
Birgir ætlar að láta til sín taka í þinginu en hann ætlar einnig að mæla fyrir þingsályktunartillögu um að skoðað verði hvort að lífeyrissjóðirnir séu að halda uppi vöxtum í landinu. Ýmislegt bendir til að svo sé, segir Birgir og við því þurfi að bregðast, þar sem til mikils er að vinna að ná niður vöxtum heimila og fyrirtækja. Lægri vextir þýða betri lífskjör.
Í samtali við Víkurfréttir segist Birgir að hann muni síðan vera með fyrirspurn til velferðarráðherra um hvenær eigi að afnema bráðarbirgðaákvæði í lögum um almannatryggingar, sem kveðjur á um að lífeyrissjóðstekjur skerði grunnlífeyrir. Þessi skerðing tók gildi 1. júlí 2009, í fyrsta sinn í sögunni. Þetta hefur komið mörgum eldri borgurum og öryrkjum illa, segir Birgir Þórarinsson, varaþingmaður Framsóknarflokks.